Um miðjan janúar síðastliðin var fyrsta alþjóðlega málþing Sameinuðu þjóðanna um gögn fyrir Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun haldið í Höfðaborg í Suður Afríku. Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eru víðtækustu markmið sem ríki heimsins hafa komið sér saman um en stefnt er að því að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030.
Á málþinginu voru saman komnir sérfræðingar á ýmsum sviðum til þess að ræða mikilvægi þess að til séu góð og áreiðanleg gögn fyrir heimsmarkmiðin 17 og 169 undirmarkmið þeirra. Mikill áhugi var á málþinginu en þátttakendur voru yfir 1400 frá meira 100 löndum. Meðal þeirra fjölmörgu atriða sem rætt var um eru þær áskoranir sem fylga því að setja saman kerfi til þess að safna, halda utan um og greina gögn fyrir heimsmarkmiðin. Tilgangurinn með góðum gögnum er að auðveldara verði að fylgjast með þeim framförum og þeirri þróun sem á sér stað varðandi markmiðin og ástand heimsins.
Tveir starfsmenn Landmælinga Íslands, Ásta Kristín Óladóttir og Þórey D. Þórðardóttir, landfræðingar sóttu málþingið og það sem vakti sérstaka athygli þeirra var að heimar tölfræðinnar og landupplýsinga eru farnir að vinna meira saman. Landfræðileg framsetning gagna gefur tölfræðigögnunum aukið vægi og gerir þau læsilegri en ella. Málþingið var sérstaklega lærdómsríkt og hvetjandi en stefnt er að því að slíkt málþing verði framvegis haldið á tveggja ára fresti, næst í Dubai árið 2019.