Ársþing Eurogeographics 2009

Eurogeographics eru samtök korta-og fasteignastofnana í Evrópu og eru 52 stofnanir frá 43 löndum Evrópu þátttakendur. Ársþing samtakanna var haldið í borginni Vilnius í Litháen dagana 20.-23. september 2009.

Tveir fulltrúar Landmælinga Íslands sóttu fundinn auk eins fulltrúa frá Fasteignaskrá Íslands en báðar stofnanirnar hafa verið í EuroGeographics um árabil. Fundurinn var vel skipulagður og voru stór mál rædd s.s. INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins um skráningu og miðlun landfræðilegra gagna þvert á stjórnsýslustig og landamæri Evrópu.

Einnig var mikið rætt um það hvernig korta- og fasteignastofnanir Evrópu geti mætt auknum þörfum um samhæfða og nákvæma stafræna kortagrunna af allri Evrópu, ekki síst vegna þeirra verkefna sem Evrópusambandið stendur fyrir. Má í því sambandi  nefna verkefnið GMES (Global Monitoring for Environment and Security) auk fjölmargra tilskipana Evrópusambandsins s.s. vatnatilskipun, flóðatilskipun og tilskipun um jarðveg.

 

Rætt var um það hvernig þau gögn sem EuroGeographics útbúa og miðla í samvinnu fjölmargra stofnana geti sem allra best uppfyllt nýjar og auknar kröfur. Þau gögn eru ýmsir kortagrunnar af Evrópu s.s. í mælikvarða 1:250.000 (EuroReginalMap) og mælikvarða 1:1000.000 (EuroGlobalMap) ásamt hæðarmódeli af Evrópu (EuroDEM), stjórnsýsumörkum af Evrópu (EuroBoundaryMap) og örnefni (EuroGeoNames). Landmælingar Íslands hafa lagt til gögn og tekið þátt í framangreindum verkefnum og var ákveðið á þessum fundi að skoða einnig vandlega að taka þátt í örnefnaverkefninu EuroGeoNames.

 

Í lok fundarins var kosin ný stjórn og nýr forseti EuroGeographics. Nýi forsetinn heitir Dorine Burmanje frá korta- og fasteignastofnun Hollands og tekur hún við af Magnúsi Guðmundssyni forstjóra Landmælinga Íslands sem gegnt hefur embætti foreta samtakanna síðustu tvö ár. Magnúsi voru þökkuðu vel unnin störf og er ljóst að talsverðar breytingar til framfara og eflingar EuroGeographics hafa átt sér stað í stjórnartíð hans. Eitt af síðustu verkefnum stjórnar EuroGeographics undir forystu Magnúsar var að taka ákvörðun um að flytja skrifstofu samtakanna frá París til Brussel.

 

Eftir ársþingið í Vilnius er ljóst að EuroGeographics samtökin hafa eflst mikið undanfarin ár og hafa þau þegar áunnið sér verðskuldað traust innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir þetta er mikil vinna framundan við að efla samtökin enn frekar við að veita aðgang að grunnþekjum landupplýsinga og við að styrkja innviði á því sviði vítt og breitt um Evrópu. Í því sambandi var nokkuð rætt um það  hvort EuroGeographics þurfi ekki að fá stöðu alþjóðastofnunar til að eflast enn frekar. Dæmi um slíkt er til dæmis Evrópska geimferðastofnunin (European Space Agency).

 

Næsta ársþing EuroGeographics verður haldið í október 2010 í Brussel í Belgíu. Frekari upplýsingar um EuroGeographics er að finna á heimasíðu samtakanna: http://www.eurogeographics.org/.

Leave a comment