Á 8. árþingi Eurogeographics sem haldið var í borginni Sibiu í Rúmeníu á dögunum var Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, endurkjörinn forseti samtakanna. Að þessu sinni var aðal umræðuefni ársþingsins, hvernig best sé að uppfylla væntingar í samfélögum þar sem landfræðilegar upplýsingar eru í auknu mæli notaðar í ákvarðanatöku, viðskiptum og tómstundum.
„Landfræðilegar upplýsingar segja ekki eingöngu til um hvar eitthvað er staðsett,“ segir Magnús Guðmundsson, forseti EuroGeographics. „Hægt er að tengja upplýsingar um staðsetningu, eignarhald, verðgildi og notkun við önnur gögn til tölfræðilegrar greiningar og til að segja fyrir um þróun. Nú, á tímum efnahagslegrar óvissu og sífelldra félagslegra og tæknilegra umbreytinga, er nákvæmur landupplýsingagrunnur sem meðlimir EuroGeographics þróa nauðsynlegur til að hægt sé að byggja upp vel rekið, samkeppnishæft og sjálfbært evrópskt hagkerfi sem þjónar öllum almenningi.“
„Gögn og sérfræðikunnátta meðlima EuroGeographics eiga nú þegar stóran þátt í evrópskri stefnumótun og ákvarðanatöku og nýtast í stofnunum eins og Eurostat, hagstofu framkvæmdastjórnar ESB. Þau nýtast einnig við mótun tilskipana á borð við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar um innra skipulag fyrir staðbundnar upplýsingar í Evrópubandalaginu (INSPIRE) og í verkefnum eins og RISE (Reference Information Specifications for Europe), sem við lukum við í lok árs 2007.“
Lykiláfangar í starfi EuroGeographics á liðnu ári eru m.a.:
Meiri samskipti við lykilaðila
Þetta hefur leitt til fleiri beiðna um þátttöku í tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar og hefur einnig tryggt að hagsmunir og skoðanir meðlima EuroGeographics heyrast bæði innan framkvæmdastjórnarinnar og á Evrópuþinginu. EuroGeographics hefur einnig þróað nánari starfstengsl við skrifstofu fyrir hnattrænt eftirlit vegna umhverfis- og öryggismála (GMES, Global Monitoring for Environment and Security) og heldur sameiginlega upplýsingafundi með Evrópsku geimferðastofnuninni fyrir meðlimi Evrópuþingsins um hlutverk landfræðilegra upplýsinga þegar bregðast þarf við hættuástandi.
EuroGeographics hyggst byggja á þessu starfi á árinu 2009 og opna skrifstofu í Brussel og mun einnig aðstoða við að stýra 3. INSPIRE ráðstefnunni og ráðstefnunni GSDI11 sem haldin verður í Rotterdam í júní 2009.
Frekari þróun á EuroGeoNames
Þetta €1,9 milljóna verkefni, sem að hluta til er fjármagnað af e-Contentplus-áætlun Evrópusambandsins, mun skila opinberu innra skipulagi að evrópskum landfræðiheitum á mörgum tungumálum. Það stuðlar að því að yfirvinna erfiðleika sem tungumál geta skapað og leiðir til þess að staðir þekkist undir mörgum ólíkum nöfnum. Vinnan gengur vel og áætlað er að verkið standist áætlun og verði tilbúið árið 2009.
Viðurkenning að upphæð €3,1 milljóna styrks fyrir e-Contentplus-tillögu EuroGeographics – Underpinning the European Spatial Data Infrastructure with a Best Practice Network
Verkefnið, sem hóf göngu sína í september 2008, mun sigrast á tæknilegum og viðskiptalegum hindrunum sem gera sem stendur erfitt um vik að finna, meta og sameina gögn á milli landa og hlaða niður, nota og endurvinna opinberar landfræðilegar upplýsingar á áreiðanlegan og hagkvæman hátt.
Nýjar og betri vörur með opinberum, nákvæmum og samevrópskum gögnum
Ný vara, EuroDEM, byggir á landhæðargögnum EuroGeographics og var gefin út í apríl 2008. Varan býður upp hæðarlíkan af 38 löndum og er því tilvalin fyrir rannsóknir á umhverfisbreytingum, vatnafarslíkön, auðlindavöktun, kortagerð og myndbirtingu. Samtökin hafa einnig uppfært EuroBoundaryMap, gagnasafn yfir stjórnsýslulegar og tölfræðilegar einingar Evrópu, EuroGlobalMap, gagnasafn í hlutföllunum 1:1 milljón og EuroRegionalMap, staðfræðileg gögn í hlutföllunum 1:250 000. Samtökin halda áfram að vinna með meðlimum á árinu 2009 við að búa til, viðhalda og dreifa samræmdum og samfelldum gagnasöfnum.
Miðlun á bestu starfsvenjum
EuroGeographics sameinar sérfræðinga á mörgum sviðum og innan samtakanna er fjöldi sérfræðihópa sem einbeita sér að ólíkum sviðum eins og gæðamálum, verðlagningu og leyfisveitingum. Þessir hópar mynda traustan grunn að miðlun hugmynda, nýjunga og upplýsinga meðal lykilaðila í landfræðilegum iðnaði í Evrópu. Á liðnu ári gaf lóða- og fasteignamatshópurinn ásamt fleirum út sameiginlega skýrslu þar sem evrópskar þarfir fyrir lóðamat eru rannsakaðar. Á næsta ári mun hópurinn einnig vinna með samtökum evrópskra fasteignamatsstofnana (European Land Registry Association) við skoðun á földum gjöldum og er það hluti af framlagi EuroGeographics til tilskipunar um samruna veðlánamarkaða í ESB.
Gæðasérfræðingahópurinn gaf út viðmiðunarreglur um notkun á ISO 19100, gæðastaðli fyrir landfræðilegar upplýsingar í korta- og fasteignastofnunum (Geographic Information Quality Standards in National Mapping and Cadastral Agencies), og viðmiðunarrannsókn á faggildingu fyrir framleiðsluferli landfræðilegra upplýsinga sem Ordnance Survey þróaði. Setning viðmiðana og gæðastjórnun verða áfram í forgangi á árinu 2009.
Magnús Guðmundsson segir að lokum: „Ríkisstjórnir, fyrirtæki og almenningur nota landfræðilegar upplýsingar sífellt meira og stofnanir á sviði landupplýsinga og fasteinamats verða því að tryggja að þær geti brugðist við þörfum þessa nýja landfræðilega meðvitaða samfélags. Þessi ráðstefna veitir stofnunum í Evrópu á sviði landupplýsinga og fasteignamats einstakt tækifæri til að ræða um hvernig þær geti mótað framtíðarþjónustu til að uppfylla síbreytilegar kröfur viðskiptavina.“