CORINE-landflokkunarverkefnið sem unnið er samtímis í flestöllum Evrópulöndum eftir nýjum gervitunglamyndum er uppfært á 6 ára fresti (sjá http://kortasja.lmi.is/) og miðast næsta uppfærsla við árið 2018. Helstu landgerðabreytingar hér á landi felast í því í fyrsta lagi að nýtt land kemur undan jöklum vegna bráðnunar þeirra og í öðru lagi að jökulárnar breyta stöðugt um farveg á söndunum sem þær hafa myndað með framburði sínum í aldanna rás. En jökulárnar eru ekki aðeins breytilegar frá ári til árs heldur getur árstíðamunur á þeim einnig verið mjög mikill.
Meðfylgjandi eru tvær Sentinel 2 gervitunglamyndir af Skeiðarársandi sem báðar eru teknar árið 2017 en á mismunandi árstíma, annars vegar þann 18. febrúar og hins vegar 23. júlí. Myndirnar eru í innrauðri framsetningu þannig að gróður kemur fram í rauðum litum. Jökullitað vatn er ljóst en bergvatn sést illa eða alls ekki á dökkum sandinum.
Á vetrarmyndinni eru engar ár áberandi á Skeiðarársandi nema Gígjukvísl frá Skeiðarárjökli en á júlímyndinni er staðan hins vegar gerbreytt. Rennsli ánna hefur stóraukist og eru Hverfisfljót og Djúpá sem sameinast á söndunum suður af Fljótshverfi ásamt Gígjukvísl mjög vatnsmiklar og áberandi. Austast á Skeiðarársandi eru Virkisá og Skaftafellsá einnig greinilegar. Skeiðará sem áður fyrr var aðalfarartálminn á sandinum (og yfir hana liggur lengsta brú landsins) er hins vegar nánast með öllu horfin.
Við næstu CORINE kortlagningu verða notaðar Sentinel-myndir sem teknar eru að sumri eða hausti, en ljóst er að talsverðar breytingar hafa orðið á Skeiðarársandi frá seinustu kortlagningunni sem var 2012 (sjá http://kortasja.lmi.is/).