Frá árinu 2000 hafa Landmælingar Íslands veitt aðgang að RINEX gögnum frá GPS/GNSS jarðstöðvum í gegnum ftp.lmi.is. Eftir því sem tíminn hefur liðið og stöðvum tengdum LMÍ fjölgað hefur rekstur og utanumhald kerfisins orðið mun umfangsmeira.
Til að bæta aðgengið að RINEX gögnunum hafa Landmælingar Íslands tekið í notkun hugbúnaðinn GNWEB. Með GNWEB verður auðveldara finna gögn auk þess sem hægt er að sníða þau eftir þörfum hvers og eins.
Í grunninn eru RINEX skrárnar 1 sekúndu gögn sem eru vistuð á klukkustundar fresti. Notendur geta svo í gegnum veflausnina GNWEB sniðið gögnin að sínum þörfum bæði hvað varðar söfnunarhraða og lengd á mæliskrám. Hnit jarðstöðvanna í skráarhaus eru í viðmiðun ISN2004.
Til að nálgast RINEX gögn verður notandinn fyrst að óska eftir að fá aðgang að vefsvæðinu með því að senda tölvupóst á gnweb@lmi.is. Til að gera samskiptin við notandann sem skilvirkastan er nauðsynlegt að fá almennar upplýsingar um notandann s.s. nafn fyrirtækis og tengiliðs og netfang. Notandinn fær síðan sent í tölvupósti notandanafn og lykilorð til að geta nálgast gögnin. Ekkert gjald er tekið fyrir gögnin.