Nákvæmar upplýsingar um umhverfisþætti eru mjög mikilvægar í þeirri viðleitni að skilja loftslagsbreytingar og breytingar á náttúrufari í heiminum í dag. Umhverfisupplýsingar eiga einnig sinn þátt í að varpa ljósi á hlut mannkyns í breytingunum og áhrifum þeirra á daglegt líf.
Landmælingar Íslands eru aðaltengiliður við Copernicusáætlun Evrópusambandsins, sem er gríðarlega viðamikil og snýst um vöktun á yfirborði og umhverfi jarðarinnar, með nýjustu gervitunglatækni. Ísland fær aðgang að þjónustu og upplýsingum um stöðu og þróun ýmissa umhverfisþátta svo sem á sviðum sjávar, andrúmslofts, náttúruvár, landnotkunar og loftslagsbreytinga. Copernicusáætlunin er eitt af stærri verkefnum Evrópusambandsins og nú þegar er búið að samþykkja fjárveitingar til verkefnisins fram til ársins 2020.
Hægt er að fræðast frekar um Copernicusáætlunina í kynningarmyndböndum á vefnum, einnig er umfjöllun um áætlunina í síðast hefti Kvarðans, fréttabréfs Landmælinga Íslands.