Landeyjahöfn á Bakkafjöru var tekin í notkun sumarið 2010 en henni fylgdi jafnframt umfangsmikil uppgræðsla lands á sandinum næst höfninni. Meðfylgjandi þrjár gervitunglamyndir sýna þróun landgræðslustarfsins á þessu svæði. Myndirnar eru ekki í náttúrulegri litaframsetningu heldur er notast við nærinnrauðar rófsupplýsingar sem valda því að gróið land kemur fram í rauðum litum.
Mynd 1 er tekin 2003 áður en framkvæmdir við hafnargerð og uppgræðslu hófust. Ekki sést stingandi strá á sandinum.
Mynd 2 er tekin 2009 eftir að framkvæmdir við Landeyjahöfn hófust. Búið er að reisa tvo varnargarða við Markarfljót til þess að verjast ágangi árinnar og innan þeirra hefur umfangsmikið landgræðslustarf þegar hafist. Nú er komin rauð slikja og sums staðar sterkur rauður litur á landið milli Markarfljóts og vegarins að tilvonandi hafnarsvæði sem sýnir að allt þetta svæði, sem er um 300 hektarar að stærð, er byrjað að gróa upp.
Mynd 3 er frá árinu 2017 þegar Landeyjahöfn hefur verið í notkun í 7 ár. Allur sandurinn norðan hafnarinnar er nú rauðlitaður þar sem 400 hektarar lands (4 km2) hafa að fullu verið græddir upp.