CORINE-verkefnið (CORINE: „Coordination of Information on the Environment“. Á íslensku: „Samræming umhverfisupplýsinga“) er nú unnið hjá Landmælingum Íslands í þriðja sinn. Verkefnið er samevrópskt landflokkunarverkefni og taka flest Evrópulönd þátt í því. Þátttökulöndin vinna að kortlagningu á landgerðum samkvæmt ákveðnum staðli þar sem notaðar eru nýjar gervtunglamyndir með mikilli greinihæfni, unnið er á sama tíma og eru sömu aðferðir notaðar í öllum þátttökulöndunum. Megintilgangurinn er að afla sambærilegra umhverfisupplýsinga fyrir öll Evrópuríki og fylgjast með breytingum sem verða á landnotkun í álfunni. Fyrsta CORINE-flokkunin var gerð uppúr 1990 en sú flokkun var uppfærð í fyrsta skipti árið 2000. Önnur uppfærsla var gerð árið 2007 og miðaðist hún við árið 2006. Skýrsla sem sýnir niðurstöður þeirrar flokkunar og sjá má á vef Landmælinga Íslands, kom út árið 2009.
Landmælingar Íslands hafa haft umsjón með flokkunarvinnunni á Íslandi og á haustdögum hófst vinna við landflokkunina í þriðja sinn. Gerður er samanburður á síðustu kortlagningu og á landgerðum eins og þær voru árið 2012 og breytingar sem orðið hafa á tímabilinu kortlagðar.
Ísland gerðist formlegur aðili að CORINE- verkefninu árið 2007 en Umhverfisstofnun Evrópu hefur yfirumsjón með verkefninu.