Stutt svar við þessari spurningu er Já.
Hugtakið
Hugtakið grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar er íslenska heitið á því sem á ensku kallast „Spatial Data Infrastructure“. Með hugtakinu er átt viðtækni, stefnur, staðla og mannauð sem þarf til að afla stafrænna landupplýsinga, vinna úr þeim, varðveita, miðla og auðvelda notkun þeirra.
Í 2. gr. INSPIRE-tilskipunar Evrópusambandsins segir að hún skuli byggð á grunngerð fyrir landupplýsingar sem komið hefur verið á fót í aðildarríkjunum og starfrækt af hálfu þeirra. Þannig er gert ráð fyrir að hvert land komi á fót grunngerð fyrir sínar landupplýsingar. Grunngerð hvers aðildarríkis þarf því ekki að vera með sama hætti og INSPIRE grunngerðin þar sem þarfir og kröfur geta verið mjög mismunandi milli landa. Þó er mikilvægt að byggja á grundvallaratriðum INSPIRE.
Samræmingarnefndin
Á Íslandi mun stefna fyrir grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar að hluta til verða mótuð af samræmingarnefnd sem skipuð verður samkvæmt nýju lögunum um grunngerð stafrænna landupplýsinga. Nefndinni er ætlað að starfa til 1. janúar 2014 og er hlutverk hennar að vinna að fyrstu aðgerðaráætlun og aðstoða stjórnvöld við frekari stefnumótun. Þannig verður mögulegt að byggja á þörfum notenda landupplýsinga á Íslandi og laga verkefnið að aðstæðum hér á landi. Grunngerðin mun einnig nýtast sem grunnur fyrir INSPIRE-tilskipunina á Íslandi þar sem aðgengi að gögnum verður betra, gögnin verða á stöðluðu formi (flokkuð eftir t.d. IST 120 flokkunarlistanum), til verða lýsigögn um þau og stefna stjórnvalda í málaflokknum verður skýr. Landmælingar Íslands munu sjá til þess fyrir hönd umhverfisráðherra að gögn sem heyra undir grunngerð landupplýsinga og ná einnig til INSPIRE-tilskipunarinnar verði gerð aðgengileg samkvæmt kröfum INSPIRE.