Eydís Líndal Finnbogadóttir skipuð forstjóri Landmælinga Íslands

Eydís Líndal Finnbogadóttir

 

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Eydísi Líndal Finnbogadóttur í embætti forstjóra Landmælinga Íslands til næstu fimm ára.

Eydís hefur starfað hjá Landmælingum Íslands frá árinu 1999, síðast sem forstöðumaður yfir fagsviði miðlunar og grunngerðar og sem settur forstjóri frá september 2018. Eydís var staðgengill forstjóra frá 2007, þar til hún var settur forstjóri.

Valnefnd skipuð af ráðherra mat Eydísi hæfasta meðal umsækjenda til að gegna embætti forstjóra Landmælinga Íslands.

Eydís er með B.Sc.-gráðu í jarðfræði og kennsluréttindi frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún lokið M.sc (Candidat) í jarðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og M.sc í opinberri stjórnsýslu (MPA) frá Háskóla Íslands. Eydís er með landvarðaréttindi auk leiðsögumannaréttinda frá Menntaskólanum í Kópavogi.

Eydís hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum, meðal annars innan skátahreyfingarinnar, ÍA og Karatesambands Íslands. Fyrir þetta hefur hún m.a. hlotið gullmerki ÍSÍ.

Eydís er gift Þresti Þór Ólafssyni, vélfræðingi og eiga þau þrjá syni.