Farsælt samstarf um kortagrunn af norðurslóðum

Eitt af markmiðum Arctic SDI verkefnisins (Artic Spatial Data Infrastructure)  er að koma á laggirnar samræmdum stafrænum kortagrunni af norðurskautssvæðinu, sem þekur um 1/6 af yfirborði jarðarinnar. Gert er ráð fyrir að kortagrunnurinn verði aðgengilegur á netinu fyrir alla sem á þurfa að halda.

Arctic SDI  verkefnið á sér nokkra sögu en því var ýtt úr vör á fundi stjórnenda norrænna kortastofnana á Grænlandi 2008. Þá var samþykkt að leita eftir samstarfi við Norðuskautsráðið (Arctic Council) og fékkst sá stuðningur ári síðar. Síðan þá hefur verið unnið að málinu í náinni samvinnu við Norðurskautsráðið og nú eru þátttakendur í verkefninu frá kortastofnunum Íslands, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands, Danmerkur (f.h. Færeyja og Grænlands), Rússlands, Kanada og Bandaríkjanna.

norðurskautsráðið2015
Á myndinni er stjórnendur átta kortastofnana sem tengjast Norðurskautinu. Aftari röð: Prashant Shukle, Kanada, Arvo Kokkonen, Finnlandi, Igor V. Vasilev, Rússlandi, Bengt Kjellson, Svíþjóð. Fremri röð: Kristian Möller, Danmörku, Kevin Gallagher, Bandaríkjunum, Anne Cathrine, Noregi og Magnús Guðmundsson, Íslandi.

Á fundi stjórnar Arctic SDI verkefnisins sem var haldinn í Kaupmannahöfn þann 4. júní sl. náðist mikilvægur áfangi við að móta stefnu um samstarfið fyrir tímabilið 2015-2020 auk þess sem samþykkt var verkáætlun til að hrinda stefnunni í framkvæmd. Á grunvelli stefnunnar verður mikil áhersla lögð á að vinna þétt með vinnuhópum Norðurskautsráðsins við að byggja upp grunngerð landupplýsinga m.a. til að  tryggja aðgengi að nákvæmustu kortagögnum sem völ er á af þessu svæði. Einnig mun verða lögð áhersla á að kanna þarfir þeirra sem munu nota gögnun. Fulltrúi Landmælinga Íslands á stjórnarfundinum var Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands.

Formennska í stjórn Artic SDI verkefnisins fylgir því landi sem fer með formennsku í Norðurskautsráðinu og á fundinum í Kaupmannahöfn tóku Bandaríkjamenn við formennskunni frá Kanada, til næstu tveggja ára.norðurskautið roadmap