Hugtakið landupplýsingar má skýra sem staðsettar kortaupplýsingar ásamt upplýsingum um þær. Landupplýsingum opinberra aðila hefur fjölgað um 59 gagnasett frá árinu 2012 samkvæmt niðurstöðum könnunar um grunngerð landupplýsinga á Íslandi sem Landmælingar Íslands stóðu fyrir fyrr á þessu ári. Könnunin náði til 40 stofnana sem falla undir lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar og á meðfylgjandi mynd má sjá fjölgun gagnasetta hjá 15 stofnunum milli áranna 2012 og 2015. Í könnuninni kom fram að lítið var um það að gagnasett sem skráð voru 2012 kæmu ekki fram núna.
Velta má fyrir sér ástæðum þessa að skráðum gagnasettum hefur fjölgað. Ein þeirra er sú að ný gagnasett hafa orðið til innan stofnana, m.a. vegna aukinna krafna á undanförnum árum um staðsett kortagögn (landupplýsingar) til upplýsingamiðlunar eða greininga.
Önnur ástæða er mögulega sú að skráningin sé nákvæmari nú en áður s.s. vegna eftirfarandi þátta:
- Auðveldari skráning og viðbætur á skráningum þar sem mikið af gögnum hefur þegar verið skráð s.s. í tengslum við fyrri kannanir.
- Skipulag gagna stofnana hefur batnað á síðustu árum og þar með yfirsýn yfir þau gögn sem stofnunin geymir og/eða vinnur að.
- Gera má ráð fyrir að starfsmenn hafi aflað sér þekkingar um grunngerðina, sem ekki var fyrir hendi árið 2012 og eigi því auðveldara með að átta sig á því hvaða gögn heyri undir grunngerð landupplýsinga hér á landi.
Þessu til stuðnings kemur fram að mikil fjölgun á skráningu var bæði hjá Landmælingum Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Fjölgun skráninga hjá Landmælingum Íslands er þó ekki endilega viðbætur heldur nákvæmari skráning gagnasetta þ.e.a.s. það sem áður var skráð sem eitt gagnasett (var í raun safn gagna) var nú skráð sem nokkur gagnasett.
Hægt er að skoða hvaða gagnasett komu fram í könnuninni í töflureiknisskjali sem fylgir skýrslunni.
Þó svo hér hafi einungis verið fjallað um stofnanir þá skal það tekið fram að grunngerðin nær einnig til sveitarfélaga og er hægt að lesa um þann hluta í skýrslunni Grunngerðarkönnun 2012.
Með könnun Landmælinga Íslands hefur fengist gott yfirlit yfir þær landupplýsingar sem til eru hjá opinberum aðilum á Íslandi, einkum hjá ríkinu. Yfirlitið auðveldar mjög möguleikana á samvinnu með gögn og til að koma í veg fyrir tvíverknað á sviði landupplýsinga.