Frumathugun á samlegð Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands

Umhverfis og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson og innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir hafa samþykkt tillögu forstjóra Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands um að gerð verði frumathugun  á samlegð í starfsemi þessara stofnanna. Frumathugunin verður unnin í nánu samstarfi Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands og í samráði við þau ráðuneyti  sem þessar stofnanir heyra undir

Eftirfarandi þættir verða hafðir til grundvallar við athugunina:

  • Greina núverandi starfsumhverfi stofnananna og meta hvernig ytri aðstæður geti haft áhrif á starfsemina á næstu árum.
  • Greina innviði stofnananna til að meta hve vel þær eru búnar undir samþættingu eða sameiningu.
  • Lýsa framtíðarsýn og skilgreina markmið með samþættingu eða sameiningu.
  • Gera tillögur um valkosti.

Verkefnið er í anda stefnu núverandi ríkisstjórnar um að bæta og einfalda stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur áherslu á hugað sé vel að markmiðum núverandi ríkisstjórnar um að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins og að sem best verði tryggt að sérhæfð þekking á sviði landupplýsinga sem byggð hefur verið upp hjá Landmælingum Íslands á Akranesi undanfarin fimmtán ár tapist ekki. Einnig leggur ráðuneytið til að mat verði lagt á hvort mögulega sé samlegð á fleiri sviðum á starfssviði Landmælinga Íslands s.s. í tengslum við stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Tillögur á grundvelli framangreinds skulu settar fram í greinargerð sem verði send til umhverfis- og auðlindaráðherra annars vegar og innanríkisráðherra hins vegar eigi síðar en 1. febrúar 2015.

Starfshópur sem skipaður hefur verið af innanríkisráðherra mun samhliða þessu verkefni vinna að stefnumótun og skipulagi í málaflokkum Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar, sjá frétt innanríkisráðuneytisins.

Tillögur á grundvelli athugunar Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands verða settar fram í greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra annars vegar og innanríkisráðherra hins vegar fyrir 1. febrúar 2015.