Fyrirlestur um landupplýsingar á UTmessunni 2018

Eydís L. Finnbogadóttir og Hafliði S. Magnússon.

Á UTmessunni sem haldin var í Hörpu föstudaginn 2. febrúar síðastliðinn flutti Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstöðumaður hjá Landmælingum Íslands, fyrirlestur um landupplýsingar og aðgengi að þeim. Fyrirlesturinn vann hún í samvinnu við Hafliða S. Magnússon, verkefnisstjóra tölvukerfis hjá stofnuninni og nefndist hann Landupplýsingar upp úr skúffunni í ákvarðanaferli.

Meðal þess sem Eydís ræddi um voru birtingamyndir landupplýsingagagna og hvað þurfi að huga að við notkun þeirra. Í fyrirlestrinum velti hún einnig fyrir sér hvort við á Íslandi værum með „puttann á púlsinum“  meðal annars í tengslum við þær öru tæknibreytingar sem framundan eru á næstu árum. Fram kom einnig að landupplýsingar eru grunnupplýsingar sem hvert samfélag verður að hafa í mjög góðu lagi. Að lokum sagði Eydís að ekkert tæknilegt hindraði öflun og miðlun landupplýsinga í dag né notkun þeirra. Hins vegar væri talsverður skortur á landupplýsingum á Íslandi og mikil krafa væri á stjórnvöld að afla grunnupplýsinga sem nýtast öllum.

Fróðlegur fyrirlestur sem sjá má á Youtube.