Rekstur Landmælinga Íslands gekk vel árið 2012, þrátt fyrir mikið aðhald og hagræðingu. Heildarvelta stofnunarinnar var um 263 milljónir króna, þar af voru sértekjur 21, 4 milljónir og framlag ríkisins 242 milljónir. Við gerð rekstraráætlunar eru allar ákvarðanir teknar með hliðsjón af fjárlögum og ávallt er farið ofan í alla sauma, verkefni metin og þeim forgangsraðað. Samhliða gerð rekstraráætlunar setja Landmælingar Íslands sér mælanleg markmið og tengjast þau árangursstjórnunarsamningi milli stofnunarinnar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Á árinu 2012 voru sett 28 meginmarkmið með mælikvörðum, auk þess voru sett fjölmörg undirmarkmið. Segja má að nær öll mælanleg markmið hafi náðst með ásættanlegum hætti þar sem 86% þeirra náðust innan þeirra tímamarka sem ákveðin höfðu verið og 14% með frávikum.
Stórir kostnaðarliðir í rekstri stofnunarinnar eru húsnæðiskostnaður og aðkeypt þjónusta, en stærsti gjaldaliður ársins 2012 voru laun og launatengd gjöld, eða um 67% af heildarveltu. Markvisst hefur verið unnið að því að þurfa ekki að fækka störfum, en Landmælingar Íslands hafa á að skipa öflugum samstilltum 28 manna hópi starfsmanna sem vinna ötullega að því að efla starfsemina og ná fram þeim markmiðum sem sett eru hverju sinni.
Rekstararáætlun ársins 2013 er nú tilbúin og hefur hún verið afhent umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til samþykktar.