Um áratuga skeið voru Atlaskortin svonefndu í mælikvarðanum 1:100 000 helstu staðfræðikort Íslendinga. Enn í dag eru margir sem taka þau kort fram yfir önnur enda með afbrigðum vel gerð og falleg kort. Uppruna Atlaskortanna er þó að finna í mjög metnaðarfullri kortagerð Dana á Íslandi en á síðasta áratug 19. aldar varð dönskum yfirvöldum ljóst að þau kort sem til voru af Íslandi stæðust ekki þær kröfur sem gera þyrfti í samfélagi þess tíma. Á fjárlögum 1899 voru því veittar 5000 krónur til nýrra þríhyrninga- og strandmælinga á Reykjanesi. Árið 1900 var gefin út tilskipun um að sendur skyldi leiðangur til Íslands til að mæla hér grunnlínu og hnattstöðu og þá um sumarið var unnin ýmis undirbúningsvinna. Árið 1902 höfðu fjárveitingar verið auknar svo að rétt þótti að hefjast handa. Fram til ársins 1914 var unnið að verkinu og náði kortlagningin frá Hornafirði, vestur ströndina og um lágsveitir Suðurlands, um Vesturland, norður og austur um Húnaflóa. Árangurinn var 117 kortblöð af þriðjungi landsins, suður- og vesturhluta, í mælikvarða 1:50.000, auk nokkurra sérkorta af afmörkuðum svæðum. Koratblöðin eru gjarnan nefnd herforingjaráðskortin í höfuðið á danska herforingjaráðinu (Generalstabens topografiske afdeling) sem stóðu fyrir gerð þeirra. Það varð fljótlega ljóst að kortagerð í þessum mælikvarða yrði of dýr ef kortleggja skyldi allt landið með þessum hætti og var því skipt um mælikvarða og landið kortlagt í 1:100 000, svokölluðum Atlaskortum.
Herforingjaráðskortin hafa um nokkurt skeið verið aðgengileg í kortasafni LMÍ en hafa nú verið hnitsett og klippt saman og er hægt að skoða þau í sérstakri kortasjá fyrir Söguleg kort eða með öðrum gögnum í Landupplýsingagátt Þeim sem vilja nota gögnin í landupplýsingakerfum er bent á Lýsigagnagátt LMÍ