Hreyfði Holuhraun við Íslandi?

Sprengisandur

Sumarið 2014 fóru fram GNSS mælingar yfir Sprengisand á 34 fastmerkjum í Landshæðarkerfinu. Slíkar mælingar eru þáttur í vöktun á Landshæðarkerfinu þar sem fylgst er með færslum í hæð og legu valinna fastmerkja á 6-8 km millibili. Þessi fastmerki voru síðast mæld haustið 2003.

Skömmu eftir að mælingum lauk á Sprengisandi hófust eldsumbrot í Holuhrauni. Af gögnum frá GNSS jarðstöðvum mátti sjá talsverðar hreyfingar sem gáfu til kynna að bjögun hafi orðið á a.m.k. hluta fastmerkjanna. Því var ákveðið að endurmæla öll fastmerki frá jarðstöðinni við Stóru Kjalöldu (STKA) og norður í Bárðardal. Mælingar fóru fram í ágúst síðastliðnum og voru gerðar í samstarfi við Vegagerðina. Fyrstu niðurstöður sýna marktæka bjögun á stórum hluta svæðisins, þ.e. frá Háumýrum og norður að Íshólsvatni. Sé miðað við jarðstöðina á Akureyri (AKUR) eru stærstu færslurnar 4,1 cm til vesturs, 1,8 cm til norðurs og 1,7 cm í suður. Sjá kort.

Þegar hæðarbreytingar eru skoðaðar kemur í ljós að dregið hefur úr landrisi á svæðinu samanborið við tímabilið 2003-2014 en þá mældist landris allt að 30 cm. Sem dæmi má nefna að grunnstöðvanetspunkturinn á Háumýr-um hefur sigið um 2,9 cm á einu ári en ætla má að hann hafi risið um allt að 50 cm frá árinu 1993 þegar grunnstöðva-netið var mælt í fyrsta sinn.  Því má segja að eldsumbrotin í Holuhrauni hafi haft talsverð áhrif bæði á landshæðar- og landshnitakerfið.

 Meðfylgjandi kort sýnir bjögun landsins á Sprenigsandi.