Þann 15. maí síðastlinn skiluðu Landmælingar Íslands árlegri INSPIRE yfirlitsskýrslu til Evrópsku umhverfisstofnunarinnar. Um er að ræða skýrslu sem er skilað á sama tíma árlega og er þetta í fimmta sinn sem slíkri skýrslu er miðlað fyrir hönd Íslands. Skýrslunni er ætla að gefa yfirlit um fjölda landfræðilegra gagnasetta hér á landi sem tengjast þemum INSPIRE tilskipunarinnar ásamt yfirliti yfir vefþjónustur við þau gögn. Þá er skýrslunni jafnframt ætlað að sýna stöðuna á innleiðingu INSPIRE tilskipunarinnar og miðar við stöðuna eins og hún var í árslok 2016.
Ef skýrslan er borin saman við niðurstöður fyrir árið 2015 kemur í ljós að á milli ára var 28% fjölgun á skráningum lýsigagna þeirra landfræðilegu gagnasetta sem tengjast INSPIRE hér á landi (25 lýsigagnaskrár 2015, 32 lýsigagnaskrár 2016).
Jafnframt sýnir skýrslan að Ísland er nú í fyrsta sinn með aðgengileg sjö gagnasett sem hafa verið samhæfð við kröfur INSPIRE hvað gagnaskipulag varðar en þau gagnasett voru unnin í tengslum við Evrópuverkefnið ELF af Landmælingum Íslands og Þjóðskrá. Öll gagnasettin sem hafa verið samhæfð eru hluti af viðauka I í INSPIRE.
Árið 2015 voru fyrir hendi 12 gagnaþjónustur tengdar INSPIRE (6 skoðunarþjónustur og 6 niðurhalsþjónustur). Lýsigagnaskráningar voru í öllum tilfellum fyrir hendi en engin þeirra uppfyllti kröfur INSPIRE. Töluverð fjölgun var á milli ára en árið 2016 voru fyrir hendi 37 gagnaþjónustur sem tengjast INSPIRE. Lýsigagnaskráning er til í öllum tilfellum, þar af uppfylla langflestar kröfur INSPIRE að fullu.
Við gerð yfirlitsskýrslunnar koma fram nokkur vandkvæði við að hafa yfirsýn frá stofnunum yfir stöðu gagnasetta þeirra. Mikilvægt er því að stofnanir sem hafa landupplýsingar skrái upplýsingar um þær í gatt.lmi.is og geri aðgengilegar þjónustur fyrir þær. Þá er jafnframt mikilvægt að huga að samhæfi gagna sem falla undir viðauka II við kröfur INSPIRE og munu Landmælingar Íslands m.a. vinna að því á haustmánuðum.