INSPIRE tilskipunin og þar með uppbygging á evrópskri grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar verður til margvíslegra samfélagsnota – t.d. hjá viðbragðsaðilum neyðaráætlana s.s. björgunarsveitum og lögreglu. INSPIRE tilskipunin á að tryggja að til verði samevrópsk grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar sem mun koma bæði opinberum stofnunum og einkageiranum til góða.
Grunnhugmyndin að baki sameiginlegri grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar er að gögn séu notuð af nærsamfélaginu, á landsvísu eða á alþjóðlegum vettvangi en einnig milli mismunandi starfsgeira (s.s. umhverfi, samgöngur, landbúnaður o.s.frv.). Þessi meginregla hefur verið mjög gagnleg. Dæmi um slíkt eru þar sem vinna þarf yfir landamæri ríkja t.d. vegna náttúruhamfara og upplýsingar frá mismunandi yfirvöldum geta gefið ítarlegt yfirlit af ástandinu sem nýtist við skipulag aðgerðar.
Þá getur samræmt landupplýsingakerfi verið mikilvægt innan annarra geira en umhverfistengdra s.s. heilbrigðisgeirans þar sem grunngerðin getur nýst við greiningu ýmissa þátta í tengslum við sjúkrahúsinnlagnir, uppruna sjúklinga og heimsóknir á neyðarmóttöku. Greiningar sem þessar má einnig nota til að finna landfræðilegan mun á neyslumynstri milli dreifbýlis og þéttbýlis til að skapa sem best skipulag við meðferð sjúkdóma og forvarnir.