Könnun á vef Landmælinga Íslands

.

Í lok árs 2015 stóðu Landmælingar Íslands fyrir könnun á vef stofnunarinnar. Könnunin var gerð bæði á íslensku og ensku og meðal þess sem kannað var voru heimsóknir á vefinn, hvers konar efni notendur vefsins voru að leita að, spurt um útlit hans, ánægju með hann og hvaða hópi svarendur tilheyrðu. Þá var í könnuninni spurt um traust til Landmælinga Íslands.

Í íslensku könnuninni kom í ljós að 78% svarenda þekkja til vefsins og fara inn á hann reglulega en flestir eru að leita að kortum, kortasjá eða örnefnasjá. Um 75% svarenda segjast vera fljótir að finna það sem þeir leita að, 70% segja að vefurinn sé auðveldur í notkun og 81% segja að hann gefi til kynna að að baki honum sé fagmannleg og áreiðanleg stofnun. Tæplega 70% segjast vera ánægðir með vefinn og flestir sem heimsækja hann segjast gera það vegna áhuga, vinnu eða útivistar. Þá kemur fram að 64% þeirra sem heimsækja vefinn eru áhugamenn um landupplýsingar.  Í könnuninni var spurt um traust til Landmælinga Íslands og var niðurstaðan sú að 84% bera mikið traust til stofnunarinnar.

Í úttekt á opinberum vefjum sem innanríkisráðuneytið stóð fyrir á síðastliðnu hausti má sjá að nytsemi vefs Landmælinga Íslands er mjög mikil eða 100% og sama má segja um innihaldið sem einnig mældist 100%. Í úttektinni mældist vefur stofnunarinnar vel yfir meðaltali opinberra vefja með 83 stig af 100 mögulegum.