Kortagerð á vegum Copernicus EMS er hafin

Íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir því að virkja neyðarkortlagningu Copernicus vegna náttúruvár (EMS). Kerfið var virkjað þann 2. september sl. og strax daginn eftir tóku að birtast kort á vef Copernicus. Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk stjórnvöld óska eftir virkjun á þessari þjónustu sem felur m.a. í sér kaup á fjarkönnunargögnum, kortagerð og hættumat. Þjónustan er Íslendingum að kostnaðarlausu þar sem Ísland er aðili að Copernicus áætlun Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Áætlunin er gríðarlega viðamikil og tekur m.a. til vöktunar á öllu yfirborði og umhverfi jarðarinnar með nýjustu gervitunglatækni en það kerfi verður fullbúið á næstu árum. M.a. er fylgst með ástandi loftgæða í heiminum og er þessa dagana fylgst grannt með þróun mála norðan Vatnajökuls, eins og sjá má hér á vef Geimferðarstofnunar Evrópu.