Samevrópsk landflokkunarverkefni heyra undir Copernicusaráætlun ESB en Umhverfisstofnun Evrópu, EEA (European Environment Agency), hefur umsjón með framkvæmd þeirra. Elst og þekktast þessara verkefna er CORINE-landflokkunin sem hófst fyrir 1990 og byggist á notkun gervitunglamynda. CORINE-flokkunin er endurtekin með nýjum gervitunglamyndum á 6 ára fresti (1990, 2000, 2006, 2012 og 2018) en eftir því sem fjarkönnunartækninni og möguleikum í tölvuvinnslu myndefnisins hefur fleygt fram hefur EEA efnt til nýrra landflokkunarverkefna í þeim tilgangi að fylgjast nánar með umhverfisbreytingum á ákveðnum svæðum. Þessi verkefni eru annars vegar svokallaðar háupplausnarþekjur (HRL: HighResolution Layers) sem eru uppfærðar á þriggja ára fresti:
- Gegndræpi yfirborðsins (Imperviousness)
- Skógar – Trjágerð (Dominant Leaf Type)
- Skógar – Þéttleiki (Tree Cover Density)
- Graslendi (Grassland)
- Vatn og bleyta (Water and Wetness).
Hins vegar eru það landflokkunarverkefni sem snúa að sérstaklega áhugaverðum eða viðkvæmum landsvæðum þar sem örra breytinga er að vænta (THM: Thematic Hotspot Mapping) og er sú kortlagning endurtekin á 6 ára fresti:
- Þéttbýli (Urban Atlas)
- Riparian Zones (Ár- og vatnsbakkar)
- Natura2000 (sérstök náttúruverndarsvæði).
CORINE-landflokkunin er gerð í hverju aðildarlanda EEA fyrir sig en HRL og THM verkefnin eru boðin út og þau unnin miðlægt af fyrirtækjum í landupplýsingaiðnaði en niðurstöðurnar síðan sendar til EEA-ríkjanna til gæðamats og leiðréttinga. Landmælingar Íslands hafa frá upphafi séð um CORINE-flokkunina og gæðamatið á HRL og THM þekjunum fyrir Ísland.
Strandsvæði
Nú hefur nýrri gagnaþekju, Strandsvæðum (Coastal Zones), verið bætt við THM verkefnin. Strandsvæði eru gríðarlega mikilvæg fyrir efnahag Evrópu. Um það bil 40% íbúa ESB búa innan 50 km frá sjó. Næstum 40% af vergri landsframleiðslu ESB myndast á þessum landsvæðum og yfir 75% af umfangi utanríkisviðskipta ESB fer fram á sjó.
Sú mikilvæga efnahagslega og félagslega starfsemi sem fer fram á strandsvæðum hefur haft mikil umhverfisleg áhrif. Siglingar, auðlindanýting, ferðaþjónusta, framleiðsla á endurnýjanlegri orku og fiskveiðar, allt setur þetta mikið álag á strendurnar. Þessa álags hefur orðið vart á flestum strandsvæðum Evrópu og hefur leitt til hnignunar búsvæða, mengunar og flýtt fyrir landeyðingu og loftslagsbreytingar munu líklega ógna strandsvæðunum og þeim samfélög sem þar eru enn frekar í framtíðinni. Þessi ógn leiðir til þess stjórnunar er þörf sem bæði tekur tillit til umsvifa mannsins sem og verndunar á viskerfum strandsvæðanna.
Landflokkun á strandsvæðum
EEA hefur núna boðið út kortlagningu strandsvæða sem fyrsta þátt í þeirri viðleitni að fylgjast með breytingum á landgerðum og landnýtingu með tímanum. Nýju gagnaþekjurnar munu ná yfir öll strandsvæði Evrópu frá sjó og 10 km á land upp, samtals um það bil 730.000 km² (sjá mynd). Minnstu kortlögu blettir verða 0,5 ha að flatarmáli og fjöldi mismunandi landgerða rúmlega 60.
Þessi fyrsta kortlagning strandsvæða Evrópu mun samanstanda af eftirfarandi gagnaþekjum:
- Landgerð/landnotkun miðað við árið 2012
- Breytingar á landgerð/landnotkun milli 2012 og 2018
- Landgerð/landnotkun árið 2018
Kortlagning strandsvæða mun síðan verða endurtekin á 6 ára fresti. Gert er ráð fyrir að niðurtstöður úr þessu fyrsta landflokkunarverkefni á strandsvæðum muni liggja fyrir í lok árs 2020. Landmælingar Íslands munu sjá um gæðamat og hugsanlega leiðréttingar á niðurstöðunum fyrir Ísland.