Landmælingar hljóta alþjóðleg landupplýsingaverðlaun

Landmælingar Íslands hafa hlotið alþjóðleg verðlaun ESRI, sem er leiðandi fyrirtæki í landfræðilegum upplýsingakerfum í heiminum.  Verðlaunin nefnast SAG (Special Achievement in GIS) og eru þau veitt þeim sem skara framúr í notkun á hugbúnaði fyrirtækisins. Að þessu sinni hlutu um 170 stofnanir eða fyrirtæki verðlaunin úr hópi um 300.000 viðskiptavina ESRI. 

 

 Landmælingar Íslands, sem eru ein af stofnunum umhverfisráðuneytisins, hlutu þessi verðlaun fyrir uppbyggingu á Landupplýsingagátt stofnunarinnar en það er vefsvæði þar sem notendur geta leitað eftir lýsigögnum um landupplýsingar opinberra aðila og tengist hún INSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins og lögum um grunngerð landupplýsinga sem tóku gildi Íslandi á síðsta ári (sjá nánar á http//gatt.lmi.is).

 

 Verðlaunaafhendingin fór fram á notendaráðstefnu ESRI í San Diego 25. júlí 2012 og tók Gunnar H Kristinsson, forstöðumaður sviðs mælinga og landupplýsinga við verðlaununum fyrir hönd Landmælinga Íslands. Við það tækifæri sagði Jack Dangermond forstjóri ESRI m.a. að þessi verðlaun væru veitt þeim sem skarað hafa framúr í notkun á landfræðilegum aðferðum til að koma til móts við þarfir samfélagsins og þar með skilgreint bestu starfshætti á þessu sviði.

 

 Þetta er í annað sinn sem Landmælingum Íslands hlotnast þessi heiður en 2001 fékk stofnunin sömu verðlaun fyrir uppbyggingu á IS 50V gagnagrunninum.

Leave a comment