Landmælingar Íslands eru fyrirmyndarstofnun 2015

Annað árið í röð eru Landmælingar Íslands fyrirmyndarstofnun í könnuninni Stofnun ársins og voru að  þessu sinni í 4. sæti í flokki meðalstórra stofnana. Landmælingar Íslands hafa tekið þátt í könnuninni, sem nú fór fram í tíunda sinn, frá upphafi og ætíð verið framarlega í flokki. Könnunin sem er ein viðamesta könnun á vinnuumhverfi hjá íslenskum stofnunum var framkvæmd í febrúar og að venju var öllum starfsmönnum stofnunarinnar, óháð því í hvaða stéttarfélagi þeir eru, boðið að taka þátt og þáðu það yfir 80% starfsmanna. Niðurstöður könnunarinnar veita stjórnendum tækifæri til að gera sér grein fyrir stöðu starfsmannamála með það að markmiði að vinna að úrbótum þar sem þess gerist þörf.

stofnun_arsins_2015
Fyrirmyndarstofnanir 2015 fengu afhenta viðurkenningu í Hörpu í dag. Myndina tók Guðni Hannesson