Í jarðskjálftanum sem varð í gær með upptök nálægt Selfossi og Hveragerði urðu miklar hreyfingar á jarðskorpunni. Sjónarvottar töluðu um að þeir hafi hreinlega séð landslagið ganga í öldum. Landmælingar Íslands bera ábyrgð á rekstri og viðhaldi svokallaðs landshnitakerfis sem byggt er upp með mörgum mælipunktum um allt land og hafa þekkta staðsetningu með nákvæmni sem mæld er í örfáum millimetrum. Í stórum jarðskjálftum geta orðið miklar færslur á þessum punktum sem getur leitt til þess að þörf er á endurmælingu kerfisins og nýjum útreikningum.Til þess að kanna áhrif jarðskjálftanna fóru mælingamenn frá Landmælingum Íslands strax í dag austur fyrir fjall til að endurmæla mælipunkta umhverfis skjálftasvæðið. Að sögn Magnúsar Guðmundssonar, forstjóra Landmælinga Íslands, eiga menn von á því að mikil færsla hafi orðið á landi nálægt upptökum skjálftans. Hnitakerfið er svo nákvæmt að skekkjumörk eru einungis 2-3 millimetrar og á Magnús von á því að mælingar sýni með öruggum hætti fram á færslu jarðskorpunnar í þessum miklu hræringum. Landmælingar Íslands eru í samstarfi við starfsmenn á eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands vegna þessara mælinga en mælingarnar nýtast einnig vegna rannsókna og vöktunar á jarðskjálftum.
Frétt tekin af www.skessuhorn.is