Landmælingar Íslands og Háskóli Íslands gera með sér samning um landupplýsingar

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands undirrituðu þann 10. janúar afnotasamning um notkun á IS 50V landfræðilega gagnagrunninum fyrir stofnanir og nemendur Háskólans. Samningurinn markar tímamót því nú hafa allir starfsmenn og nemendur aðgang að fullkomnum landfræðilegum gagnagrunni af öllu Íslandi og geta notað hann við nám, rannsóknir og kennslu. Þeir hafa einnig réttindi til að birta gögnin í vísindagreinum og námsritgerðum.

Við sama tækifæri var samningur Háskóla Íslands og Landmælinga Íslands um fjarkönnun endurnýjaður. Tilgangur samningsins er að vinna að eflingu fjarkönnunarrannsókna á Íslandi.

Samkvæmt lögum nr. 103/2006 reka Landmælingar Íslands stafrænan kortagrunn í viðmiðunarmælikvarða 1:50.000. Grunnurinn, sem nær yfir allt Ísland, er byggður upp í sjö lögum sem eru mannvirki, hæðarlínur, vatnafar, örnefni, stjórnsýslumörk, samgöngur og yfirborð. Grunnurinn er í stöðugri endurskoðun og er hann notaður víða í samfélaginu m.a. við skipulagsvinnu sveitarfélaga, við kortaútgáfu og í leiðsögukerfum fyrir farartæki. Mikilvægt er að stuðla að aukinni notkun landupplýsinga og korta innan Háskóla Íslands og stofnana hans við kennslu, rannsóknir og lausn margvíslegra verkefna, ekki síst á sviði umhverfismála.

Leave a comment