Landmælingar Íslands taka þátt í rannsóknarverkefni Copernicus áætlunarinnar

Copernicusáætlun Evrópusambandsins er viðamikið verkefni sem snýst um vöktun á yfirborði og umhverfi jarðarinnar og er Ísland aðili að henni í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið.

Í október 2014 birti Evrópska umhverfisstofnunin upplýsingar um útboð á rannsóknaverkefni um gæða- og nákvæmnismat á gögnum sem tengjast umhverfiseftirliti samkvæmt Copernicusaráætluninni. Markmið þessa verkefnis er að styrkja Copernicusaráætlunina sem miðar að því að auka og bæta umhverfiseftirlit í álfunni með notkun gervitunglamynda, en undir Copernicus heyra t.d. Corine og HRL-gagnalögin, Urban Atlas, Riparian Zones og Natura2000 landflokkunarverkefnin sem uppfærð eru á nokkurra ára fresti. Verkefnið er í tveimur hlutum sem reyndar eru mjög tengdir og fjalla annars vegar um gæðamat á gervitunglamyndum, afleiddum gögnum og viðmiðunarupplýsingum sem tengjast landflokkun í Evrópu og hins vegar um þróun tæknilegra lausna á fyrirkomulagi fullbúins kerfis fyrir umhverfiseftirlit í álfunni í framtíðinni

Landmælingar Íslands eru hluti af fjölþjóðlegum rannsóknarhópum sem buðu í verkefnin en alls bárust fjögur tilboð í hvort verkefni fyrir sig. Evrópska umhverfisstofnin valdi í báðum tilfellum þau tilboð sem Landmælingar Íslands voru aðili að og hefur nú verið gengið frá samningum um bæði verkefnin. Verkefnin munu taka alls fjögur ár og verður byrjað á þeim á fyrri hluta ársins 2015. Þátttakendur í rannsóknateymunum eru frá Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Bretlandi og Ítalíu auk Íslands.

Meðfylgjandi mynd er fengin að láni á vef Copernicus áætlunarinnar.