Landupplýsingar hjá sveitarfélögum á Íslandi

Grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á Íslandi nær ekki einungis til opinberra stofnana heldur einnig til allra sveitarfélaga landsins. Könnun á stöðu landupplýsinga sem Landmælingar Íslands (LMÍ) stóðu fyrir fyrr á þessu ári, og sagt hefur verið frá á síðustu vikum hér á vef LMÍ, var einnig send til sveitarfélaganna. Af 74 sveitarfélögum bárust svör frá 56.

Þetta er í annað skipti sem sveitarfélögin taka þátt í könnun sem þessari og var sú fyrri árið 2009. Könnunin var tvískipt, annars vegar var um að ræða almennar spurningar um landupplýsingar sveitarfélagsins og hins vegar beðið um að gögnin væru sundurliðuð. Niðurstöður könnunarinnar frá árinu 2009 sýndu að almennt eru sveitarfélögin komin skemur á veg hvað varðar vinnslu og notkun landupplýsinga en opinberar stofnanir, sérstaklega þau minni. Þetta á enn við í dag en þó hefur ýmislegt breyst og jákvæð þróun orðið.

Sveitarfélögin voru spurð hvort fjallað hefði verið um það í sveitarstjórn eða meðal embættismanna hvernig mæta beri kröfum sem lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar (nr. 44/2011) og INSPIRE tilskipunin gera varðandi landupplýsingar sveitarfélagsins. Af 57 sveitarfélögum liggja mótaðar hugmyndir fyrir hjá aðeins þremur. Þetta eru Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær og Snæfellsbær. Tólf sveitarfélög svara að ekkert sé að vanbúnaði að hefja umfjöllun. Þetta má túlka sem svo að viðkomandi sveitarfélög átti sig á því um hvað verkefnið fjallar en af ýmsum ástæðum hefur vinnan ekki hafist.

Í síðasta lið könnunarinnar gafst þátttakendum kostur á að koma á framfæri skýringum eða ábendingum varðandi landupplýsingamál sveitarfélagsins. Þar gefa sveitarfélög til dæmis þær skýringar að tímaskortur, peningaleysi og starfsmannafjöldi sé það sem helst hefur tafið framþróun landupplýsingamála hjá sveitarfélaginu undanfarin ár.

Innleiðing grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsinga er langtímaverkefni og þátttakendur misvel í stakk búnir til að takast á við verkefnið sem þarfnast ákveðinnar sérkunnáttu fagaðila. Tæknibreytingar eru örar og mikið hefur breyst í síðastliðnum árum. Því er engin ástæða til annars en að ætla að verkefnið sé á réttri leið þó svo að innleiðingin taki sinn tíma.

Á myndinni má sjá svör sveitarfélaganna.

landuppl_hja_sveitarf