Undanfarin ár hefur verið unnið að gerð nákvæmra landlíkana af jöklum Íslands með lasermælingum úr flugvél. Verkefnið hefur verið unnið undir forystu Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, með stuðningi Landmælinga Íslands og fleiri opinberra stofnana og sjóða. Sambærileg landlíkön af jöklum landsins hafa ekki verið til fram til þessa.
Hlutverk Landmælinga Íslands í verkefninu hefur verið að útvega viðmiðunargögn til nákvæmrar staðarákvörðunar á flugvélinni og að framkvæma GPS mælingar sem bornar eru saman við landlíkanið til að sannreyna gæði þess. Mælingarnar gengu vel í sumar og tókst að ljúka að mestu mælingum á Eyjafjallajökli, Mýrdalsjökli, Öræfajökli, Breiðamerkurjökli og Hornarfjarðarjöklunum. Einnig var norðausturhorn Hofsjökuls mælt og tvö lítil svæði á vestanverðum Vatnajökli. Samtals eru þetta um 3500 km2.
Áður hafa verið mæld með sömu tækni nákvæm landlíkön af Snæfellsjökli, Langjökli, Eiríksjökli og af mestum hluta Hofsjökuls. Nákvæm landlíkön af jöklum veita möguleika á margskonar rannsóknum auk þess að hafa mikla hagnýta þýðingu. Með endurteknum mælingum verður unnt að fylgjast með breytingum á jöklunum, reikna rúmmálsbreytingar og þar með framlag þeirra til aukins afrennslis fallvatna og hækkunar sjávarborðs heimshafanna. Nákvæm kortlagning af jöklum landsins er mikið framfaraskref í kortagerð og landmælingum á Íslandi og kemur til með að gefa okkur betri mynd af þeirri miklu auðlind sem jöklarnir okkar eru.