Eitt af markmiðum Landmælinga Íslands er að nýta kosti innlends og erlends samstarfs til að afla og miðla þekkingu, meðal annars á sviði landmælinga. Að undanförnu hefur stofnunin, í samstarfi við norsku kortastofnunina Kartverket, tekið þátt í ráðgjafaverkefni í Albaníu sem snýr að þróun og styrkingu á grunnhnitakerfi landsins. Fyrir hönd Landmælinga Íslands stýrir Guðmundur Valsson mælingaverkfræðingur verkefninu og fór hann til Albaníu á dögunum til að veita aðstoð við að koma upp landmælingakerfum sambærilegum þeim sem eru annars staðar í Evrópu. Guðmundur skoðaði kerfin sem Albanir hafa notað við landmælingar og hefur hann í framhaldi af því gert tillögur um hvernig hægt er að bæta þau og endurnýja. Albanir vinna um þessar mundir að því að koma á fót nýrri landmælingastofnun en hingað til hafa landmælingar landsins verið í höndum hersins. Verkefnið í Albaníu tilheyrir þróunarverkefni á vegum Kartverket sem einnig greiðir allan kostnað vegna þess.
Meðfylgjandi mynd er tekin í Albaníu