Þann 23. janúar síðastliðinn voru öll stafræn kort og landupplýsingar í vörslu Landmælinga Íslands gerð gjaldfrjáls. Gögnin eru notuð við ýmis verkefni á vegum stofnana ríkisins s.s. við skipulagsmál, náttúruvernd, náttúruvá, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir en einnig gagnast þau almenningi og fyrirtækjum með margvíslegum hætti.
Töluverður undirbúningur hefur farið fram hjá Landmælingum Íslands, við að gera aðgengi gagnanna eins auðvelt og hægt er þannig að greiðlega gangi að hlaða þeim niður af vefnum. Viðbrögð hafa verið mikil frá fyrsta degi, mikil aðsókn að vef stofnunarinnar og fjöldi skráðra notenda og skráa sem sóttar hafa verið orðinn umtalsverður. Margir notendur hafa lýst ánægju sinni yfir því að gögnin skulu nú vera gjaldfrjáls og hve greiður aðgangur er að þeim.
Frá 23. til 31. janúar hafa heimsóknir á vef Landmælinga Íslands verið samtals 15.518 sem er margfalt meira en venja er til. Frá sama degi hafa alls 521 notendur skráð sig til að hlaða niður gjaldfrjálsum gögnum, samtals 2.389 stafrænar skrár sem eru alls 493,2 GB að stærð.
Notendur gjaldfrjálsra gagna í vörslu Landmælinga Íslands eru hvattir til að hafa samband við stofnunina ef þeir óska frekari upplýsinga eða ef þeir hafa athugasemdir eða ábendingar. Senda má póst á lmi@lmi.is.