Ný DORIS stöð við mælingahúsið á Höfn

Frakkinn Damien Pesce við uppsetningu Doris stöðvar við mælingahús LMÍ á Höfn. Myndina tók Þórarinn Sigurðsson.

Í síðustu viku var sett upp ný DORIS (Doppler Orbitography and Radiopositioning Integrated by Satellite) mælistöð við mælingahús Landmælinga Íslands á Höfn í Hornafirði. Verkefnið er samstarfsverkefni Landmælinga Íslands og IGN (Institut national de l’information géographique et forestière) í Frakklandi. IGN á og rekur búnaðinn en Landmælingar Íslands útvega aðstöðu og þjónustar búnaðinn eftir þörfum.

DORIS stöð hefur verið rekin á Íslandi síðan 1990. Fyrst í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi en síðan í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Borgartúni. Í fyrra var ákveðið að taka þá stöð niður og setja upp nýja á Höfn.

Megin tilgangur DORIS er að ákvarða nákvæmar brautir gervitugla sem notuð eru til umhverfisvöktunar, sér í lagi til vöktunar á breytingum sjávarborðs. Um 60 DORIS stöðvar eru reknar í heiminum í dag.

Þá er DORIS tæknin einnig hluti að skilgreiningu á alþjóðlega viðmiðunarrammanum ITRF en ISN hnitakerfi Landmælinga Íslands eru byggð á þeim ramma.

Við mælingahúsið eru því komnar tvær af fjórum helstu mæliaðferðum sem skilgreina ITRF en GNSS jarðstöðin HOFN, sem rekin er í samstarfi við BKG í Þýskalandi, hefur lengi verið hluti að ITRF. Auk þess rekur Kartverket í Noregi þar GNSS mælibúnað sem notaður er til þess að mæla virkni í jónahvolfinu og Veðurstofan búnað til að mæla eldingar.