Þessa dagana er unnið að gerð nýrrar heimasíðu fyrir Arctic SDI verkefnið, sem er samstarfsverkefni átta kortastofnana á Norðurslóðum. Verkefnið snýst um uppbyggingu á grunngerð fyrir landupplýsingar á Norðurslóðum og að gera stafrænan kortagrunn, sem byggður er á bestu fáanlegu gögnum sem kortastofnanir samstarfslandanna búa yfir, aðgengilegan á netinu.
Martin Skedsmo, tengiliður Kartverket í Noregi við Arctic SDI, hefur í dag og í gær verið í vinnuheimsókn hjá Landmælingum Íslands meðal annars vegna breytinga á heimasíðunni en Landmælingar Íslands leggja til sérfræðiþekkingu og hýsingu síðunnar.
Martin fundaði einnig með tengiliðum Landmælinga Íslands í Arctic SDI verkefninu. Á fundi þeirra kom fram að að Arctic SDI verkefnið gengur vel en nýlega undirrituðu allar stofnanirnar átta svokallað MoU, sem er viljayfirlýsing um samstarfið. Dagana 2. – 5. september eru síðan áætlaðir fundir nokkurra vinnuhópa verkefnisins á Íslandi og stjórnarfundur þess er dagana 20. – 21. nóvember næstkomandi.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Martin Skedsmo og Sigurjón Jónsson vinna við uppfærslu á heimasíðunni.