Í gær, 28. mars 2017, samþykkti danska þingið einróma ný lög um landupplýsingar og kortagerð. Með samþykkt laganna hefur verið sköpuð betri umgjörð um skilvirkni fyrir hið opinbera á sviði landupplýsinga, lagagrunnur aðlagaður að nútímanum og regluverk einfaldað.
Landupplýsingar og kort s.s. upplýsingar um mörk sveitarfélaga, byggingar, innviði, hvernig landslag lítur út og o.s.frv. eru notaðar við ýmis verkefni á vegum hins opinbera og má þar nefna skipulagsmál, náttúruvá, rannsóknir og opinberar framkvæmdir. Þá gagnast þær ekki síður almenningi og fyrirtækjum með margvíslegum hætti. Þess vegna er nákvæm og áreiðanleg kortlagning og önnur skráning landfræðilegra gagna undirstaða allra framkvæmda og uppbyggar í samfélaginu.
Í nýju dönsku lögunum eru reglur um kortlagningu til sjós og lands ásamt uppbyggingu á grunngerð landupplýsinga staðfestar og er þar um að ræða lykilinn að víðtækum landfræðilegum upplýsingum. Lögin ná einnig yfir samstarf á opinberum vettvangi, um rafrænar þjónustur sem veita aðgang að gjaldfrjálsum landfræðilegum grunngögnum. Í nýlegri könnun sem gerð var í Danmörku kemur fram að ávinningur samfélagsins vegna gjaldfrjálsra landupplýsingagagna sé um 3,5 milljarðar danskra króna á ári.
Systurstofnnanir Landmælinga Íslands í Danmörku, „Styrelsen for Dataforsyning og Effektivisering (SDFE)“ og „Geodatastyrelsen“ fara með daglega framkvæmd laganna.
Kristian Möller forstjóri SDFE segir í viðtali á vef stofnunarinnar að notkun landupplýsinga fari stöðugt vaxandi og með vel skipulögðum, gjaldfrjálsum landupplýsingagögnum séu miklir efnahagslegir möguleikar bæði fyrir fyrirtæki og opinbera aðila sem veita skilvirkari þjónustu.
Pia Dahl Höjgaard forstjóri Geodatastyrelsen segir m.a. að með nýju lögunum séu stór tímamót í starfsemi stofnunarinnar og að stofnunin líti björtum augum á áframhaldandi vinnu við samræmingu og uppbyggingu gagna fyrir sjókortagerð. Þá sé með lögunum sköpuð umgjörð til að þróa og skipuleggja gjaldfrjáls landfræðileg gögn innan fasteignamarkaðarins. Lögin koma til framkvæmda 1. júlí 2017.