Ný skýrsla um niðurstöður könnunar á grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar

Mynd Guðni Hannesson
Mynd Guðni Hannesson

Fyrr á þessu ári stóðu Landmælingar Íslands fyrir könnun á stöðu landupplýsinga meðal opinberra stofnanna og opinberra fyrirtækja sem talið var að hefðu landupplýsingar meðal gagna sinna. Könnun sem þessi hefur verið framkvæmd með reglulegu millibili allt frá árinu 2008. Síðasta könnun var framkvæmd árið 2015 bæði meðal stofnana og sveitarfélaga. Könnunin var að þessu sinni send til 54 stofnana og eru það níu fleiri en árið 2015 en að þessu sinni náði hún ekki til sveitarfélagana.

Landmælingar Íslands fengu ráðgjafafyrirtækið Alta til liðs við sig við framkvæmd könnunarinnar. Úrvinnsla var í höndum Landmælinga Íslands og afraksturinn er skýrslan sem hér er vísað í, Landupplýsingar opinberra stofnanna og opinberra fyrirtækja á Íslandi – Könnun um stöðu opinberra landupplýsinga í tengslum við grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar 2018. Skýrslunni fylgir töflureiknisskjal þar sem fram koma upplýsingar um gagnasettin sem stofnanir töldu upp í könnuninni.

Tilgangur könnunarinnar

Tilgangurinn með könnuninni var að fá yfirlit yfir fjölda opinberra gagnasetta ásamt því að fá stöðu á skráningu lýsigagna og upplýsingar um miðlun gagnanna. Þá var einnig markmið að fá upplýsingar um hvernig gögnin skiptust milli flokka í Viðaukum INSPIRE tilskipunarinnar og hvernig ýmsum málum varðandi söfnun og dreifingu væri háttað.

Könnunin tengist innleiðingu laga nr.  44/2011, um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar sem hefur nú staðið yfir í nokkur ár. Ágætlega hefur gengið að innleiða lögin en Landmælingar Íslands fara með innleiðinguna fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra. Markmið laganna er að byggja upp og viðhalda aðgengi að stafrænum landupplýsingum á vegum stjórnvalda en lögin tengjast INSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins. Í tilskipuninni er krafa um skráningu lýsigagna fyrir opinberar landupplýsingar og miðlun gagna með vefþjónustum á stöðluðu formi. Á árunum 2016 – 2018 hafa Landmælingar Íslands lagt áherslu á skráningu lýsigagna og miðlun með vefþjónustum og á sama tíma hvatt opinbera aðila til slíks hins sama en lögin um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar ná til allra opinberra stjórnvalda, bæði stofnana og sveitarfélaga.

Helstu niðurstöður

Út frá niðurstöðum könnunarinnar er ljóst að breytingar til hins betra eru að verða í landupplýsingamálum á Íslandi. Meðal annars kemur fram í skýrslunni að landupplýsingagögnum fjölgar milli ára og á sama tíma fjölgar einnig skráðum lýsigögnum. Þetta mætti túlka sem svo að fleiri stofnanir séu orðnar meðvitaðar um mikilvægi þess að skrá lýsigögn. Einnig virðist sem staða þekkingar, mannauðs og hugbúnaðarmála er snýr að landupplýsingum hjá stofnunum sé heldur að lagast.

Einnig kemur fram að flestar opinberar landupplýsingar á Íslandi eða um ¾ eru gjaldfrjálsar og ætti það því ekki að vera hamlandi þáttur í notkun gagna. Það er á sama tíma einnig áhugavert að aðeins um þriðjungur stofnana hefur skilgreinda notkunarskilmála fyrir gögn sín og mætti því íhuga vel hvort ekki sé hægt að vinna slíka skilmála fyrir landupplýsingar opinberra aðila í heild sinni.

Ein af niðurstöðum þessa verkefnis er að það þarf áfram að vinna hörðum höndum að því að koma landupplýsingum á staðlað form, í gagnagrunna, skrá um þau lýsigögn og miðla með vefþjónustum. Könnun sem þessi kallar jafnframt fram sameiginlega sýn á hvaða gögn skortir í íslensku samfélagi og ætti það að gefa yfirvöldum tækifæri á að forgangsraða við gagnakaup og að tryggja að til séu áræðanlega kortagögn og landupplýsingar af landinu sem nýtist öllum. Með tilvist og aðgengi að gögnum getur opin rafræn stjórnsýsla fyrst orðið að veruleika.

Hagsmunaaðilar og þátttakendur í verkefninu grunngerð landupplýsing á Íslandi, eru hvattir til að kynna sér niðurstöður könnunarinnar og hafa samband við Landmælingar Íslands ef frekari upplýsinga er óskað.