Ný uppfærsla IS 50V

Ný uppfærsla af IS 50V gagnagrunninum hefur verið sett á niðurhalssíðu LMÍ, en frá og með síðustu áramótum eru öll gögn LMÍ gjaldfrjáls. Útgáfuform IS 50V gagnasettsins hefur breyst í kjölfar þessa og er útgáfan nú bundin við hvert gagnasett (lag) fyrir sig. Í framhaldinu fer tíðni uppfærslu hvers lags svo eftir því hve mikið hefur borist af nýjum gögnum. Ekki er lengur talað um sérstakt útgáfunúmer heldur verður notast við útgáfudagsetningu. Gögnunum er hægt að hala niður hér https://www-gamli.lmi.is/stafraen-gogn/is-50v-nytt/ og er hægt að fá gögnin á GDB og SHP skráarformi.

Helstu breytingar frá síðustu útgáfu IS 50V eru eftirfarandi:

Hæðargögn: Nær allt hæðarpunktalagið var yfirfarið í samræmi við hæðarlínulagið og voru m.a. tæplega 800 punktar teknir út (mest á jöklum). Smávægilegar leiðréttingar voru gerðar á hæðarlínulaginu.

Mannvirki : Breytingar og leiðréttingar voru gerðar í mannvirkjapunktalaginu. Í flákalaginu var farið yfir útlínur þéttbýlisstaða og lagfært. Einnig eru komnar nýjar upplýsingar um íbúafjölda frá Hagstofunni.

Örnefni: Nýskráning örnefna hefur farið fram á nokkrum svæðum. Helstu svæðin eru Borgarfjörður, Eyjafjörður, Húnavatnshreppur, Mjóifjörður, Skagafjörður, Vatnajökulsþjóðgarður, ásamt nokkrum jörðum á Suðurlandi. Nokkuð hefur verið um leiðréttingar eftir að athugasemdir berast frá fólki sem t.d. notar vefþjónustu LMÍ.

Samgöngur: Fáeinum nýjum vegum frá Vegagerðinni hefur verið bætt við. Einnig hefur vegayfirborðið verið endurskoðað og eigindataflan uppfærð.

Strandlína: Í tengslum við uppfærslu á vatnafarinu urðu tilfærslur á hjálparlínum en lega strandlínunnar breyttist ekkert.

Vatnafar: Nokkur lítil svæði víðsvegar á landinu voru uppfærð s.s norðan við Vatnajöklul, sunnan við Þórisvatn, norðan við Reykhóla, kringum Tröllutunguheiði, sunnan við Mýrdalsjökul, norðan við Blönduvirkjun, í Eyjafirði og norðan við Húsavík. Einnig voru lagfæringar gerðar fyrir utan uppfærslusvæðin. Við uppfærslu á flákalaginu og línulaginu voru notaðar loftmyndir frá Samsýn ehf. og SPOT-5 gervitunglamyndir. Punktalagið var uppfært með því að færa fossa og flúðir á rétta staði.