Ný útgáfa af vinsælasta kortagrunni LMÍ

Frá því fyrsta útgáfa IS 50V kortagrunnsins kom út árið 2004 hefur hann verið uppfærður reglulega og að öllu jöfnu hafa komið út tvær uppfærslur af honum á ári. Kortagrunnurinn er notaður víðsvegar í samfélaginu og því mikilvægt að halda honum eins réttum og nákvæmum og kostur er.  Á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands er komin ný útgáfa IS 50V. Í þetta skiptið eru öll lögin gefin út meðal annars vegna þessa að grunnurinn er nú í landshnitakerfinu ISN 2016 (EPSG:8088) og afhendingarformið er á GeoPackage sniði en það skráarsnið hentar bæði þeim sem nota opinn hugbúnað (t.d. Qgis) eða hugbúnað frá ESRI eða öðrum hugbúnaðarframleiðendum.

Að venju eru flestar breytingar á örnefnalaginu, um 6.300 og er heildarfjöldi örnefna í grunninum nú yfir 134.000. Alltaf er eitthvað um skemmtileg örnefni og milli útgáfa hafa þessi örnefni m.a. verið skráð: Draugahellir (tvínefni Hauskúpuhellir), Maðkavík, Samvinnumýri, Heimsendir, Óþægðarbunga, Eitraðihólmi, Bulluholt, Ormalönd (nefnd eftir stórum svörtum brekkusniglum sem eru þar), Margfaldiklettur, Kattarnef, Stórfiskur, Gagnleysingi, Lifandilífslækur.

Tæknilegar upplýsingar um útgáfuna

Meðal breytinga sem verða er að nafn og dagsetning á hverju lagi koma núna sem yfirheiti en eru ekki lengur í heiti laganna sjálfra, sjá hér fyrir neðan dæmi um mannvirki. Núna fylgja líka töflur úr fitjuskrá með lögunum þar sem það á við, enda eru engir flettilistar (en:domain) í töflunum lengur. Hægt er að tengja töflurnar við lögin til að fá upplýsingar, bæði í Qgis og AcMap.

Í öllum lögunum er dálkurinn heimild orðinn texti (samkvæmt staðli) í stað heiltölu og dettur því dálkurinn heimild_texti  út, á þó ekki við örnefnin en þar hefur dálkurinn heimild alltaf verið texti. Það eru ekki aðrar breytingar en þessar á hæðargögnunum, strandlínu, vatnafari og yfirborði.

Á örnefnum, mannvirkjum, mörkum og samgöngum urðu mismiklar breytingar en flestar breytingar eru í örnefnalaginu og er það eina lagið þar sem stöðugt er unnið að uppfærslum. Frá síðustu útgáfu hafa bæst við yfir 300 nýjar jarðir í örnefnalagið sem ýmist er búið að skrá eða eru í skráningu hjá heimildamönnum úti um allt land. Rúmlega 1400 örnefni voru skráð í Skaftárhreppi. Rúmlega 200 örnefni skráð á hafi. Áfram hefur verið mikið skráð í Þingeyjarsveit og á Fljótsdalshéraði. Verkefni er hafið í Fljótsdalshreppi og gengur vel. Í upphafi árs fór mikil vinna í að lagfæra upplýsingar úr töflum og samræma við nýjan nafnberalista.

Í mannvirkjum voru gerðar breytingar og leiðréttingar í punktalaginu en flákalagið breyttist einungis lítilsháttar

Í markarklaginu voru gerðar breytingar á sveitarfélagamörkum (línur og flákar). Samkomulag var gert milli sveitarfélaganna Árborgar og Flóahrepps um að smá partur (landnúmer 22186, 1781 m2) færi yfir til Sveitarfélagsins Árborgar frá Flóahreppi.

Póstnúmeralagið breyttist við þetta en önnur lög breyttust ekki. Lagið umdæmi svæði fylgir ekki lengur, bara umdæmi flákar. Heimildartöflurnar (t_mork_mal og t_mork_mal) fylgja ekki lengur með enda er komin sérstök vefsjá um heimildir sveitarfélagamarka.

Í vegalaginu urðu aðeins breytingar, t.d. var hluti vegarins nr. 417, Bláfjallaleið, lokaður vegna vatnsverndarsjónarmiða, einnig hefur fáeinum nýjum vegum frá Vegagerðinni verið bætt við. Ýmsar leiðréttingar voru gerðar, vegayfirborðið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin.

Í flákalaginu bættist flugvöllurinn í Nýjadal á Sprengisandi við.

Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í lýsigagnagátt Landmælinga Íslands og gögnin sjálf er hægt að skoða í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands og kortasjá Lansmælinga Íslands.

Einnig er hægt að nálgast IS 50V í gegnum wms og wfs þjónustur. Með því að nota t.d. opna hugbúnaðinn Qgis (https://qgis.org/en/site/) er hægt að skoða IS 50V gegnum þessar þjónustur.

wms: https://gis.lmi.is/geoserver/IS_50V/ows?request=GetCapabilities&service=WMS

wfs: https://gis.lmi.is/geoserver/IS_50V/ows?request=GetCapabilities&service=WFS

Bendum einnig á leiðbeiningarsíðu Landmælinga Íslands en þar er að finna ýmsar upplýsingar.