Á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands er komin ný útgáfa fjögurra gagnalaga af átta í IS 50V. Um er að ræða uppfærslu á örnefnum, mannvirkjum, mörkum og samgöngum.
Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu og er það eina lagið þar sem stöðugt er unnið að uppfærslum. Frá síðustu útgáfu örnefna hefur verið skráð töluvert af örnefnum í Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppi, Dalabyggð, Vesturbyggð, Skagabyggð, Akrahreppi, Grýtubakkahreppi, Eyjafjarðarsveit, Þingeyjarsveit, Norðurþingi, Vopnafjarðarhreppi, Fljótsdalshéraði, Borgarfjarðarhreppi og Fljótsdalshreppi. Fjöldi örnefna í grunninum er nú tæplega 122 þúsund.
Í markalaginu voru gerðar breytingar á línum og flákum í sveitarfélagamörkunum milli Sveitarfélagsins Árborgar og Flóahrepps, samkvæmt samkomulagi milli sveitarfélaganna frá 29.6.2018. Einnig breyttust mörkin á fáeinum öðrum stöðum. Sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs mun heita Suðurnesjabær. Póstnúmeralagið breyttist aðeins en önnur lög eru óbreytt.
Í mannvirkjum voru gerðar breytingar og leiðréttingar í punktalaginu. Nú eru um 23.400 mannvirki í laginu. Smávæginlegar breytingar voru gerðar í flákalaginu.
Vegalagið breyttist í samgöngulaginu, þar sem nýir vegir frá Vegagerðinni voru settir inn t.d. Vaðlaheiðargöng og nýtt hringtorg við Esjumela. Viljum þó vekja athygli á því að Vaðlaheiðargögn opna ekki formlega fyrr en 12. janúar 2019. Þá voru ýmsar leiðréttingar gerðar, vegayfirborðið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en það eru t.d. alltaf einhverjar breytingar á vegnúmerum. Flákalagið, flugvellir, er hins vegar óbreytt.
Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í lýsigagnagátt LMÍ og gögnin sjálf er hægt að skoða í landupplýsingagátt LMÍ og kortasjá LMÍ
Einnig er hægt að nálgast IS 50V í gegnum wms og wfs þjónustur. Með því að nota t.d. opna hugbúnaðinn Qgis (https://qgis.org/en/site/) er hægt að skoða IS 50V gegnum þessar þjónustur.
wms : https://gis.lmi.is/geoserver/IS_50V/ows?request=GetCapabilities&service=WMS
wfs: https://gis.lmi.is/geoserver/IS_50V/ows?request=GetCapabilities&service=WFS
Bendum einnig á leiðbeiningarsíðu LMÍ en þar er að finna ýmsar upplýsingar.