Nýr vettvangur fyrir grunngerðarþemu

Fyrir stuttu var opnaður vettvangur fyrir sérfræðinga og leikmenn sem koma að eða hafa áhuga á uppbyggingu grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar á Íslandi. Um er að ræða þemuklasa innan grunngerðar landupplýsinga og er tilgangur þeirra að halda utan um umræður og þekkingu á skyldum landupplýsingaþemum (INSPIRE þemum), en grunngerðarlögin, sem sett voru í kjölfar INSPIRE tilskipunar Evrópusambandsins, kveða á um skráningu og aðgengi að ákveðnum landupplýsingum. Þegar hafa fjórir þemuklasar verið opnaðir á facebókarsíðunum:

https://www.facebook.com/groups/AdstodurVeiturThjonusta/
https://www.facebook.com/groups/jardvisindi/
https://www.facebook.com/groups/liffjolbreytileiki/
https://www.facebook.com/groups/tolfraedi/

Hægt og bítandi munu fleiri þemuklasar bætast í hópinn sem að lokum eiga eftir að vera níu talsins. 

Allir eru velkomnir í hópana og allir geta hleypt nýjum meðlimum í hópana. Ástæðan fyrir opnun þemuklasanna er sú að stofnanir bera einar ábyrgð á lagalegu hlutverki við að gera gögn sín aðgengileg samkvæmt grunngerðarlögunum. Þó er ekki hægt að ætla þeim að gera það algjörlega hjálparlaust og hafa því stofnanir sem vinna að sömu eða svipuðum þemum þennan vettvang til að ræða tækniatriði, hvort sem það er umfang þemanna, skilningur á mismunandi eigindum eða annað sem kemur upp. Sérfræðingar Landmælinga Íslands munu áfram veita leiðsögn um almenna þætti INSPIRE og vera notendum innan handar. Gefi þessi vinna góða raun er stefnt að því að setja upp sérstakan umræðuvef svipaðann þeim sem evrópska rannsóknarmiðstöðin er með (https://themes.jrc.ec.europa.eu/).

Landmælingar Íslands munu leiða þemuklasana áfram fyrstu metrana í þeirri von að áhugi á bættu aðgengi landupplýsinga hjá stofnunum og landupplýsingasamfélaginu í heild verði til þess að klasarnir verði „sjálfbærir“ innan skamms.