Landmælingar Íslands tóku í notkun nýtt örnefnaskráningarveftól nú í haust. Heimildarmenn geta skráð örnefni með þessu veftóli beint inn í örnefnagrunn stofnunarinnar. Skráning er hafin í nýja veftólinu en stöðugt er unnið að endurbótum og lagfæringum.
Áður, eða frá 2009-2013, var notað örnefnaskráningarveftól sem unnið var í samvinnu við Loftmyndir ehf og var örnefnagrunnurinn hýstur þar. Núna er örnefnagrunnurinn hýstur hjá Landmælingum Íslands og gerir það starfsmönnum stofnunarinnar auðveldara að fylgjast með allri skráningu örnefna og vinna með örnefnagagnagrunninn. Notaðar eru loftmyndir frá Samsýn sem undirlag en þær þekja þó ekki allt landið og því eru notaðar gervitunglamyndir á þeim svæðum þar sem loftmyndir frá Samsýn eru ekki til. Gervitunglamyndirnar eru þó fæstar með nægjanlega greinihæfni til að hnita inn minnstu fyrirbærin og því er byrjað að bæta inn háupplausnar gervitunglamyndum á einstökum svæðum. Vonir eru bundnar við að hægt verði að bjóða upp á slík gögn sem ná yfir stóran hluta landsins á næstu mánuðum.
Skráningaraðilar og heimildarmenn
Nú hafa fimm nýir skráningaraðilar hafið skráningu með veftólinu, á örnefnum í Þingeyjarsveit. Það er Urðarbrunnur –menningarfélag sem stendur fyrir verkefninu og er ætlunin að skrá örnefni í Þingeyjarsveit og Mývatnssveit en gert er ráð fyrir að haldið verði áfram með verkefnið í allri Þingeyjarsýslu. Allir skráningaraðilar vinna samkvæmt ákveðnu verklagi og nota örnefnalýsingar frá nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum hefur haft skráningaraðgang síðan 2010 og er verkefni þeirra enn í gangi. Mikill fjöldi örnefna er nú sjáanlegur á þeirra svæði í örnefnasjá Landmælinga Íslands (http://atlas.lmi.is/ornefnasja/) þegar þysjað í mælikvarða 1:10 000 og kemur þá greinilega í ljós mikilvægi skráningar heimamanna.
Örnefnalýsingar jarða eru til á textaformi og eru varðveittar hjá nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar má lesa sér til um örnefnin en næsta vonlaust er þó fyrir ókunnugan að ætla sér að staðsetja þessi örnefni á loftmynd nema staðkunnugur heimildarmaður sé viðstaddur og geti lesið í landið og myndina um leið og örnefnalýsingin er lesin. Því er mikilvægt að ná til þeirra heimildarmanna sem best þekkja til og þiggja aðstoð þeirra við að staðsetja örnefnin.
Í yfir hundrað ár hefur verið unnið markvisst að söfnun örnefna á Íslandi en örnefni eru ein mikilvægasta stoð menningararfsins og þjóðarvitundar. Með því að skrá örnefnin inn í gagnagrunn með staðsetningu er verið að vinna gríðarlega mikilvægt verk til að varðveita þessi örnefni og staðsetningu þeirra til allrar framtíðar. Það er því óskandi að fleiri aðilar taki sér Þingeyinga og Borgfirðinga til fyrirmyndar og hefji skipulega skráningu og varðveislu örnefna á sínum heimaslóðum.