Örnefni á Íslandi

Nýtt íslenskuátak er hafið á mjólkurfernum MS og snýst átakið um örnefni, sögu þeirra og uppruna. Átakið er unnið í samvinnu MS og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem vona að það veki áhuga landsmanna á uppruna örnefna og jafnvel löngun fólks á að ferðast um landið og kynna sér nýja og áhugaverða áfangastaði á landinu, eins og segir á vef MS.

Landmælingar Íslands hafa í allmörg ár unnið að skráningu örnefna í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og staðkunnuga í sveitum landsins. Nú þegar hafa verið skráð rúmlega 90.000 örnefni í örnefnagrunn, en hægt er að skoða þau í Kortasjá Landmælinga Íslands og hlaða niður án endurgjalds. Tveir sérfræðingar hjá stofnuninni vinna í fullu starfi við skráningu örnefnanna eftir viðurkenndum heimildum, auk þeirra geta staðkunnugir skráð í örnefnagrunn í gegnum veftól sem Landmælingar Íslands leggja til. Grunnheimildir örnefna eru alltaf örnefnalýsingar sem eru varðveittar hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.