Þriðjudaginn 31. maí var haldinn kynningafundur á nýjum útgáfum IS 50V gagnagrunnsins. Til fundarins mættu 16 notendur frá 12 stofnunum og fyrirtækjum. Farið var yfir það sem er nýtt í IS 50V 3.0 og 3.1 útgáfunum og framtíðaráætlanir fyrir uppfærslu grunnsins voru kynntar. Að auki voru hugmyndir um vefþjónustur ræddar og farið yfir IST 120 staðalinn. Fundarmenn voru duglegir við að spyrja starfsmenn LMÍ spurninga er varða framleiðsluna og koma með ábendingar um hvað betur mætti fara svo að grunnurinn nýttist notendum enn betur.
Landmælingar Íslands héldu samsvarandi fund fyrir ári síðan og er gert ráð fyrir að slíkir fundir verði haldnir árlega. Stofnunin telur mikilvægt að vera í góðu sambandi við notendur til að tryggja nákvæmni og notagildi IS 50V gagnanna auk þess að koma með nýjungar í framleiðslunni. Þetta er í góðu samræmi við ný gildi stofnunarinnar: Nákvæmni, Notagildi, Nýsköpun.