Þann 8 – 11 október síðastliðin fóru þrír starfsmenn Landmælinga Ísland í heimsókn til Skotlands og Norður-Írlands með stuðningi Evrópsambandsins (TAIEX aðstoð). Ferðin var farin til að afla upplýsinga og reynslu við uppbyggingu grunngerðar landupplýsinga á landsvísu. Þrátt fyrir að ýmis mál tengd INSPIRE tilskipuninni hafi verið rædd ítarlega, var mikil áherslan lögð á skipulag landupplýsinga og tengsl þeirra milli stofnana, bæði með tilliti til stjórnunarlegra þátta jafnt sem tæknilegra.
Stofnanirnar sem heimsóttar voru í Skotlandi voru Scottish Government, The Royal Commission on the Ancient and Historical Monuments of Scotland, EDINA (Edinborgar Háskóli) og Scottish Environmental Protection Agency (SEPA). Á Norður Írlandi var Land and Property Services heimsótt sem er korta- og fasteignastofnunin þar í landi.
Gagnsemin af því að heimsækja mismunandi stofnanir í tveimur löndum gaf góða yfirsýn yfir mismunandi aðferðir við lausn mála og við að samtengja gögn og þekkingu til að byggja upp grunngerð landupplýsinga. Ferðin var í alla staði vel heppnuð og gaf gott yfirlit yfir skipulag málaflokksins í þessum löndum auk þess að tryggja starfsmönnum Landmælinga Íslands góð sambönd við lykilaðila er tengjast m.a. INSPIRE tilskipuninni.