Þann 15. maí s.l skiluðu Landmælingar Íslands skýrslu og yfirliti gagnasetta til umhverfisstofnunar Evrópu. Skýrslu sem þessari er skilað á þriggja ára fresti en yfirliti gagnasetta sem búið er að skilgreina að verði INSPIRE tæk gögn, er skilað árlega. Í skýrslunni er fjallað um innleiðingu INSPIRE-tilskipunarinnar á Íslandi á árunum 2013-2016 og þróun nýrrar íslenskrar grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar. Skýrslan tekur við af sambærilegri skýrslu sem var gefin út árið 2013.
Árið 2015 voru framkvæmdar kannanir á meðal opinberra aðila og niðurstöðurnar notaðar fyrir bæði skýrsluna og yfirlitið. Eins nýttist vinna INSPIRE vinnuhópa inn í þessa vinnu.
Þegar ný lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar nr. 44/2011 voru samþykkt var kominn grunnur að því að hægt væri að beita aðferðum sem INSPIRE leggur til. Lögin eru eins konar rammi sem heldur utan um tækni, stefnur, staðla og mannauð sem þarf til að afla stafrænna landupplýsinga, vinna úr þeim, varðveita, miðla og auðvelda notkun þeirra. Uppbygging nýrrar grunngerðar fyrir landupplýsingar á Íslandi er til stuðnings á innleiðingu INSPIRE.