SPOT 5

SPOT-5 gervitunglamyndir og nýtingarmöguleikar þeirra á Íslandi

 

Frá árinu 2002 hafa Landmælingar Íslands staðið fyrir sameiginlegum kaupum innlendra stofnana á SPOT-5 gervitunglamyndum af Íslandi. Þessar SPOT myndir eru nú orðnar yfir 80 talsins og þekja allt landið, en haldið er áfram að uppfæra safnið með kaupum á nokkrum myndum árlega, einkum af þeim stöðum þar sem landbreytingar eða breytingar á landnotkun hafa orðið.

SPOT-5 myndirnar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt og eru notaðar reglubundið í margs konar verkefnum hér á landi.

Gervitunglamyndir hafa frá upphafi (1972) verið notaðar við margs konar rannsóknir á Íslandi t.d. í jarðfræði, jöklafræði og við kortlagningu á gróðri. Margir notendur settu það samt fyrir sig að greinihæfni (nákvæmni) gagnanna hafi verið ónóg fyrir ákveðnar rannsóknir auk þess sem gögnin sjálf voru dýr og verð á sérhæfðum tölvubúnaði til úrvinnslu á stafrænum myndgögnum var mjög hátt. Á allra seinustu árum hafa orðið verulegar breytingar til batnaðar hvað öll þessi atriði snertir; greinihæfni myndgagnanna hefur stóraukist og verð þeirra lækkað hlutfallslega auk þess sem hug- og vélbúnaður til myndvinnslu kostar núna ekki nema lítið brot af því sem hann gerði fyrir áratug síðan.

SPOT-5 gervitunglamyndir

Segja má að nýtt tímabil í þróun fjarkönnunargervitungla hefjist með tilkomu SPOT-5 sem skotið var á loft 2002. Miklar vonir eru bundnar við SPOT-5 myndir og ljóst er að notkun þeirra getur orðið almenn á Íslandi á fjölmörgum sviðum rannsókna og kortlagningar. Helstu kostir SPOT-5 gagnanna eru þessir:

  • Hver mynd nær yfir 60km x 60km = 3600 km2
  • Myndirnar eru fjölrása, teknar á 5 aðgreindum rásum eða böndum (grænu og rauðu sýnilegu ljósi, nærinnrauðu, miðinnrauðu og einu „pankrómatísku“ bandi)
  • Auk nærinnrauða bandsins eru þær einnig með miðinnrautt band sem hefur mikla þýðingu í flokkun á yfirborði lands
  • Mikil greinihæfni; 2,5m eða 5m myndpunktsstærð
  • Hægt er að taka myndir af sama stað á 1 – 2 daga fresti
  • Forvinnsla gagnanna felur í sér uppréttingu og hnitsetningu
  • Verðið er mjög hagstætt miðað við önnur háupplausnargögn; 200 – 270 kr/ferkm.

Nýtingarmöguleikar SPOT-5 mynda á Íslandi

Notkun SPOT-5 mynda getur orðið almenn á Íslandi á fjölmörgum sviðum rannsókna og kortlagningar og mjög margar opinberar stofnanir og öll sveitarfélög landsins geta nýtt sér þau í tengslum við lögbundin verkefnasvið sín. Sem dæmi um möguleg notkunarsvið SPOT-5 myndanna má nefna eftirfarandi:

  • Söfnun landupplýsinga og kortagerð
  • Umhverfismat og skipulag
  • Gróður, landgræðsla og jarðvegsrannsóknir
  • Jöklamælingar og vatnafarsmælingar, vatnsbúskapur
  • Jarðfræði- og landfræðirannsóknir

Leave a comment