Frá árinu 2002 hafa Landmælingar Íslands staðið fyrir sameiginlegum kaupum innlendra stofnana á SPOT-5 gervitunglamyndum af Íslandi. Þessar SPOT-myndir eru nú orðnar yfir 80 talsins og þekja allt landið, en haldið er áfram að uppfæra safnið með kaupum á nokkrum myndum árlega, einkum af þeim stöðum þar sem landbreytingar eða breytingar á landnotkun hafa orðið.
Nú er til SPOT-5 þekja af öllu landinu með myndum sem teknar voru 2002 – 2007, en 2008 og 2009 voru keyptar nokkrar myndir af þeim stöðum þar sem fyrri myndir eru orðnar gamlar eða eru gallaðar (t.d. vegna skýja og skýjaskugga) og þar sem verulegar breytingar hafa orðið á yfirborði eða landgerðum (t.d. vegna framkvæmda eða bráðnunar jökla). Alls voru keyptar 7 SPOT myndir á þessum tveimur árum.
SPOT-5 mynd af Bakkafjöru
Mynd 713-218 (shift 8), Hvolsvöllur II, er tekin 29. ágúst 2009 og nær frá Heklu suður undir Vestmannaeyjar. Stækkaður hluti myndarinnar (mynd 1) sýnir vel stöðu framkvæmda vegna nýrrar hafnar á Bakkafjöru (Landeyjahöfn) þar sem tveir nýir 4 – 500 metra langir brimvarnargarðar eru áberandi. Enn fremur má sjá tvo varnargarða við Markarfljót rétt austan hafnarinnar sem eiga að halda ánni í skefjum og loka fyrir vatnagang vestur á sandinn. Með því eru komnar forsendur til þess að græða upp sandinn og hefur Landgræðslan nú sáð melfræi í 300 hektara svæði vestan Markarfljóts (http://www.land.is).
Innrauðu tíðniböndin (eða mælirásirnar) í gervitunglamyndum gefa sérstaklega góðar upplýsingar um gróðurþekju og ástand gróins lands vegna þess að grænn gróður endurvarpar innrauðri geislun að stórum hluta og mun meira en í sýnilegu ljósi. Það er því mjög áhugavert að bera saman innrauðar upplýsingar SPOT-myndarinnar saman við samsvarandi upplýsingar í „gömlu“ SPOT-myndinni af þessu sama svæði sem tekin var árið 2003, áður en framkvæmdir við hafnargerðina og uppgræðslu landsins hófust (myndir 2 og 3).
Sá háttur hefur löngum tíðkast við tölvuvinnslu myndefnisins að rauður litur er tengdur innrauða bandinu eða mælirásinni í framsetningu myndanna. Það hefur þær afleiðingar að gróið land kemur fram í rauðum litum og er rauði liturinn þeim mun sterkari sem landið er betur gróið eða ástand gróðurþekjunnar er betra.
Breytingin sem orðið hefur milli áranna 2003 og 2009 er mjög sláandi. Sandurinn á þessum slóðum var gróðurlaus með öllu árið 2003, en nú er komin rauð slikja og sums staðar sterkur rauður litur á landið milli Markarfljóts og vegarins að tilvonandi hafnarsvæði sem sýnir að allt þetta svæði, sem er um 300 hektarar að stærð, sé á góðri leið með að verða algróið.
Sjá einnig landbreytingar á Reyðarfirði í tengslum við álver.