Markmið og hlutverk
Landmælingar Íslands eru ein af stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og starfa samkvæmt lögum
um landmælingar og grunnkortagerð nr. 103/2006 og lögum um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar nr.
44/2011. Markmiðið með starfseminni er að tryggja að ávallt séu til aðgengilegar og áreiðanlegar
staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland og að hafa umsjón með uppbyggingu á
grunngerð stafrænna landupplýsinga.
Meginhlutverk Landmælinga Íslands eru
- Vera umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til ráðuneytis á fagsviðum stofnunarinnar.
- Uppbygging og viðhald landshnita- og hæðarkerfis.
- Gerð, viðhald og miðlun á stafrænum þekjum í mælikvarða 1:50 000.
- Skráning og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn.
- Gerð og notkun staðla á sviði landupplýsinga.
- Veita aðgang að gögnum sem stofnunin varðveitir.
- Eiga faglegt samstarf við háskóla, stofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki og alþjóðleg samtök.
- Að hafa umsjón með uppbyggingu, framkvæmd og eftirfylgni við grunngerð landupplýsinga á Íslandi í
náinni samvinnu við umhverfisráðuneytið.
Framtíðarsýn
Landmælingar Íslands hafa forystuhlutverk og stuðla að samvinnu við að tryggja tilvist og aðgengi að traustum
landupplýsingum um Ísland og stuðla að notkun þeirra á fjölbreyttan og hagkvæman hátt, ekki síst í þágu
umhverfismála. Landmælingar Íslands eru framsækin þekkingarstofnun í stöðugri þróun, þar sem nákvæmni,
notagildi og nýsköpun eru grundvöllur starfseminnar.
Gildi
Starfsmenn Landmælinga Íslands hafa eftirfarandi þrjú gildi til hliðsjónar í öllu starfinu:
Nákvæmni: Við vöndum vinnubrögð og öflum okkur sífellt nýrrar þekkingar. Við notum nýjustu tækni til að
gögn og upplýsingar sem koma frá Landmælingum Íslands séu áreiðanlegar og öruggar fyrir notendur.
Notagildi: Við gætum þess að gögn og upplýsingar samræmist kröfum samfélagsins um notagildi. Við leggjum
áherslu á öflugt samstarf, upplýsingagjöf og gott aðgengi að gögnum.
Nýsköpun: Við sýnum frumkvæði og sveigjanleika og leitum sífellt nýrra leiða við að auka virði og notagildi
gagna, ferla og samstarfs. Við nýtum okkur innlent og erlent samstarf til að leita nýrra tækifæra og þekkingar.
Mannauður
Landmælingar Íslands eru þekkingarstofnun þar sem starfsemin byggist á góðum og hæfum starfsmönnum með
einarðan vilja til að ná árangri bæði sem einstaklingar og í hópavinnu. Stofnunin er fjölskylduvænn vinnustaður
með hvetjandi starfsumhverfi þar sem metnaður, samstarf og liðsheild ráða ríkjum. Starfsmenn vinna eftir
skýrum gildum og stefnum til að ná markmiðum stofnunarinnar.
Notendur
Notendur gagna og þjónustu Landmælinga Íslands eru stofnuninni mikilvægir og leggja starfsmenn sig fram við
að veita þeim góða og skilvirka þjónustu. Stofnunin leggur áherslu á sem víðtækustu og fjölbreytilegustu notkun
gagna s.s. á sviði skipulags- og umhverfismála, vegna öryggismála eða til miðlunar s.s. á vefnum, á kortum eða í
leiðsögutækjum. Landmælingar Íslands laga starfsemi sína stöðugt að kröfum notenda og leiðbeina um
hagnýta, framsækna og fjölbreytta nýtingu gagna og upplýsinga.
Umhverfismál
Landmælingar Íslands leggja sig fram við að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og taka mið af víðtækri
vernd umhverfisins. Unnið er eftir umhverfisstefnu þar sem lögð er áhersla á vistvæn innkaup og að bæta
nýtingu hvers kyns aðfanga sem notuð eru í starfseminni. Landmælingar Íslands vinna að samræmingu og
samnýtingu opinberra landupplýsinga m.a. við verkefni er lúta að vöktun umhverfisins.
Gæðamál
Landmælingar Íslands beitir viðurkenndum aðferðum gæðastjórnunar þar sem allir starfsmenn taka virkan þátt
í að vinna stöðugt að endurbótum.