Í tilefni af því að nú er að verða til fyrsta sameiginlega hæðarkerfið fyrir Ísland bjóða Landmælingar Íslands til kynningarfundar þriðjudaginn 15. desember kl. 9:00 í salnum Háteigi á Grand Hóteli.
Þar munu verða haldin erindi um nýja hæðarkerfið og eru fyrirlesarar Jaakko Mäkinen FGI (The Finnish Geodetic Institute), Jón Helgason Vegagerðinni, og Guðmundur Valsson Landmælingum Íslands. Boðið verður upp á morgunverð í upphafi fundar.
Eitt af mikilvægustu verkefnum Landmælinga Íslands er að byggja upp og viðhalda sameiginlegu hæðarkerfi fyrir allt Ísland. Allt frá árinu 1992 hafa Landmælingar Íslands og Vegagerðin átt farsælt samstarf, ásamt Landsvirkjun og Orkustofnun á tímabili, við svokallaðar fínhallamælingar. Markmið þessa langtímaverkefnis er að til verði eitt sameiginlegt hæðarkerfi fyrir allt Ísland sem uppfylli nákvæmnis- og gæðakröfur nær allra notenda.
Til þess að nýta sem best það sem þegar hefur áunnist við fínhallamælingar undanfarin ár hafa Landmælingar Íslands ákveðið að gefa út fyrsta hæðarkerfið fyrir allt Ísland á árinu 2009. Byggt er á þeim gögnum sem nú liggja fyrir en mælingar sem gerðar verða í framhaldinu verða notaðar til að auka enn á áreiðanleika hæðarkerfisins. Til ráðgjafar við úrvinnslu og útreikninga fengu Landmælingar Íslands til samstarfs finnsku landmælingastofnunina FGI sem er ein af leiðandi rannsóknarstofnunum á þessu sviði í Evrópu.
Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á póstfangið lmi@lmi.is.