Uppfærslur fyrir árið 2017 á EuroBoundaryMap og EuroRegionalMap eru nú komnar á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands auk þess sem lýsigögn hafa verið uppfærð í lýsigagnagáttinni.
Í EuroBoundaryMap sem er í mælikvarða 1:100 000 eru stjórnsýslumörk og mannfjöldatölur uppfærðar árlega. Í EuroRegionalMap sem er í mælikvarða 1:250 000 er allur gagnagrunnurinn uppfærður á tveggja ára fresti og unnið með misjöfn lög ár hvert. Árið 2017 var unnið að uppfærslum í vatnafari, örnefnum og í lagi sem nefnist ýmislegt og inniheldur m.a. skóla, vita, söfn, lögreglustöðvar, ráðuneyti, bóndabæi, námur, þjóðgarða, friðlönd, rafmagnslínur ásamt fleiri upplýsingum.
Við uppfærslur á Evrópugrunnunum er notast við IS 50V gagnagrunn Landmælinga Íslands og gögn þar einfölduð. Einnig eru ýmsar upplýsingar sóttar til annarra stofnana.
EuroRegionalMap er samevrópskur gagnagrunnur sem inniheldur landupplýsingar í mælikvarða 1:250 000. Gagnagrunnurinn nær yfir 27 aðildarríki Evrópubandalagsins (fyrir utan Króatíu), 4 EFTA ríki (Liechtenstein, Noreg, Ísland og Sviss), Moldóvu, Serbíu, Kosovó, Makedóníu og Georgíu. Gögnin eru samfelld og samræmd og eru framleidd í samstarfi við kortastofnanir og fasteignaskrár Evrópu sem nota landsbundna gagnagrunna.
EuroRegionalMap er nytsamlegt til ýmis tækifæri svo sem við svæðisgreiningu, kortaútgáfu og sem bakgrunnskort. Einnig er hægt að nota gögnin með öðrum gagnagrunnum við markaðsskipulag og félags- og efnahagslegar greiningar, umhverfisgreiningar og stjórnun flutninga.