Uppsetning á GNSS jarðstöðvum

Landmælingar Íslands hafa sett upp tvær GNSS (GPS) jarðstöðvar á síðustu vikum. Stöðvar þessar eru á Ísalfirði (gamla Kaupfélagið) og við bæinn Heiðarsel norður af Egilsstöðum. Við uppsetningu á stöðvunum nutu starfsmenn LMÍ margvíslegrar aðstoðar frá heimamönnum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Stöðvanar eru hluti af framtíðar GNSS jarðstöðvaneti Landmælinga Íslands. Hlutverk jarðstöðvanetsins er að vakta grunnstöðvanet landsins og auðvelda viðhald þess. Þetta er einkar mikilvægt vegna áhrifa flekahreyfinga á grunnstöðvanetið en landið rekur í sundur u.þ.b. 1 cm á ári  í sitt hvora áttina. Áætlað er að jarðstöðvanetið innihaldi 15-20 stöðvar, en nú þegar koma Landmælingar Íslands að rekstri 6 stöðva.

Þessar stöðvar eru, auk Ísafjarðar og Heiðarsels, staðsettar á Akureyri, Höfn í Hornafirði, Mývatni og í Reykjavík. Gögn frá þessum stöðvum er hægt að nota við úrvinnslu á margs konar GNSS mælingum og stefna Landmælingar Íslands að því að gera þessi gögn aðgengileg öllum þeim sem vilja síðar á árinu.

 

Leave a comment